Íslenski boltinn

Gunnar hetjan í grannaslagnum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ásgeir Þór Ingólfsson og félagar í Grindavík eru á góðri leið upp í Pepsi-deildina.
Ásgeir Þór Ingólfsson og félagar í Grindavík eru á góðri leið upp í Pepsi-deildina. vísir/vísir
Gunnar Þorsteinsson reyndist hetja Grindavíkur í grannaslagnum gegn Keflavík í Inkasso-deild karla, en leikurinn var mikilvægur sigur í toppbaráttunni.

Staðan var markalaus í hálfleik, en eina mark grannaslagsins kom á 70. mínútu þegar Gunnar Þorsteinsson skoraði eina mark leiksins.

Sigurinn var ekki bara mikilvægur vegna grannaslagsins heldur einnig í toppbaráttu Inkasso-deildarinnar því Grindavík er nú í 2. sætinu með 31 stig.

Þeir hafa skilið Keflavík sex stigum frá sér, en sjö leikir eru eftir af deildinni. Grindavík er stigi frá KA, sem er á toppnum, en KA vann 4-0 sigur á Leikni Fáskrúðsfirði.

Aleksandar Trninic skoraði tvö mörk og þeir Elfar Árni Aðalsteinsson og Ólafur Aron Pétursson sitt hvort markið. KA á toppnum með 32 stig, en Leiknir á botninum með níu stig - sex stigum frá öruggu sæti.

HK vann Selfoss 4-3 í fjörugum leik á Selfossi. Kristófer Eggertsson og Hákon Ingi Jónsson skoruðu báðir tvö mörk fyrir HK, en Svavar Berg Jóhannsson, Ivan Martinez Gutierrez og James Mack skoruðu mörk Selfyssinga.

HK náði að lyfta sér upp fyrir Fjarðabyggð með sigrinum og situr nú í níunda sæti með sautján stig, fjórum stigum frá falli. Selfoss er í sjötta sætinu með 20 stig.

Úrslit og markaskorar eru fengnir frá úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×