Golf

Tiger missir af öllum risamótunum í fyrsta sinn á ferlinum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tiger Woods hrynur niður heimslistann í meiðslunum.
Tiger Woods hrynur niður heimslistann í meiðslunum. vísir/getty
Tiger Woods, einn besti kylfingur sögunnar, er hættur við að keppa á PGA-meistaramótinu og mun því missa af öllum fjórum risamótunum á einu almanaksári í fyrsta sinn síðan hann spilaði á risamóti árið 1995.

PGA-meistaramótið er síðasta risamót ársins en Tiger spilaði fyrst á risamóti fyrir 21 ári þegar hann tók þátt á The Masters sem er fyrsta risamót hvers árs.

Tiger, sem er fertugur, hefur ekki spilað keppnisgolf í tæpt ár vegna bakmeiðsla. Hann fór í tvær aðgerðir vegna meiðslanna síðasta haust.

Umboðsmaður Tigers staðfesti í gærkvöldi að hann mun ekki spila meira á þessu keppnistímabili og að hann sé einfaldlega ekki klár í keppnisgolf.

Þessi magnaði kylfingur sem hefur fjórtán sinnum á ferlinum unnið risamót er kominn niður í 628. sæti heimslistans eftir að tróna þar á toppnum svo árum skipti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×