WB greiddi nýverið sekt fyrir að hafa greitt fjölmörgum vinsælum aðilum á Youtube fyrir að fjalla um leikinn árið 2014 án þess að þeir hafi greint frá því. Í greinargerð fjármálaeftirlits Bandaríkanna er PewDiePie sérstaklega nefndur og er tekið fram að hann hafi fengið þúsundir dala.
PewDiePie er vinsælasta rásin á Youtube en rúmlega 46 milljónir manna fylgjast með henni.
Kjellberg segir að þrátt fyrir að honum hafi ekki verið skylt að greina frá því að hann hafi fengið greitt fyrir umfjöllunina hafi hann samt gert það. Því sé mjög ósanngjarnt að draga hans nafn fram fyrir það að vera stærstur af þeim sem tóku þátt í markaðssetningunni.
Hann segir fjölmiðla og fólk nota nafn rásarinnar sem svokallaðan smelludólg.
Þar að auki segir Kjellberg að hann sé ekki gagnrýnandi.
Til þess að sjá að myndbandið hafi verið styrkt af WB þarf að smella á „Read more“ undir myndbandinu.
Fjármálaeftirlit Bandaríkjanna vill hins vegar að yfirlýsingar um styrki séu sjáanlegar eða heyranlegar í myndböndunum sem sjálfum. Sem dæmi, lesendur Vísis sem horfa á myndböndin tvö í þessari frétt, geta ekki séð yfirlýsingar um styrkveitingar á Youtube.
Í samtali við leikjamiðilinn Gamasutra segir Mary Engle, frá fjármálaeftirlitinu að hver sem horfi á slík myndbönd eigi ekki að geta misst af yfirlýsingu um styrkveitingu.
Reglurnar sem WB brutu voru settar svo að áhrifamiklir einstaklingar geti ekki flutt skoðanir fyrirtækja sem sínar eigin.