Golf

Mickelson ekki á sama flugi og í gær en heldur forystunni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Phil Mickelson slær í rigningunni í dag.
Phil Mickelson slær í rigningunni í dag. vísir/getty
Bandaríski kylfingurinn Phil Mickelson er áfram í forystu á opna breska meistaramótinu í golfi en annar keppnisdagur stendur nú yfir og er sýnt beint frá honum á Golfstöðinni. Frábært verður var í gær á fyrsta keppnisdegi en veðrið hefur strítt mönnum í dag og spilaði Mickelson í mikilli rigningu á kafla.

Mickelson, sem setti vallarmet á Royal Troon í gær og var hársbreidd frá sögulegu skori þegar hann spilaði á 63 höggum, fór hringinn í dag á 69 höggum eða tveimur höggum undir pari.

Bandaríkjamaðurinn fór fyrri níu holurnar á þremur undir pari með því að fá þrjá fugla en á seinni níu fékk hann einn fugl og tvo skolla. Hann er að hitta 71 prósent brautanna af teig og 72 prósent flatanna á Royal Troon-vellinum.

Mickelson er með tveggja högga forskot á Svíann Henrik Stenson sem er á fimm höggum undir í dag eftir 15 holur og á átta höggum undir pari samanlagt. Daninn Sören Kjeldsen spilaði á þremur undir pari í dag og er samtals á sjö höggum undir pari í þriðja sæti.

Fimm manna bandarísk hersveit kemur á eftir Norðurlandabúunum en efsti Englendingurinn þessa stundina er Andrew Johnston á fjórum höggum undir pari. Hann spilaði á 69 höggum í dag líkt og í gær.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×