Íslenski boltinn

Svona fór Garðar Gunnlaugs að því að skjóta niður KR-inga | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Garðar Gunnlaugsson fagnar sigurmarki sínu.
Garðar Gunnlaugsson fagnar sigurmarki sínu. Mynd/Stöð 2 Sport
Skagamenn unnu ótrúlegan endurkomusigur á KR-vellinum í 8. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld og þeir geta þakkað það útsjónarsemi eins manns.

Garðar Gunnlaugsson skoraði tvö mörk á síðustu sjö mínútunum og tryggði Skagamönnum fyrsta deildarsigur sinn síðan 12. maí eða í 42 daga.

KR-ingar komust í 1-0 eftir einstaklingsframtak Kennie Knak Chopart á 53. mínútu og það stefndi lengi í langþráðan KR-sigur.

Skagamenn voru hinsvegar ekkert á því að gefast upp þrátt fyrir slæma stöðu og að lítið hafi gengið hjá liðinu í undanförnum leikjum.

Garðar jafnaði úr vítaspyrnu sem var dæmd þegar Gunnar Þór Gunnarsson varði skot Ásgeirs Marteinssonar með hendi en Garðar gaf boltann á Ásgeir.

Garðar skoraði af miklu öryggi úr vítaspyrnunni en markið kom á 83. mínútu leiksins.

Leiktíminn var síðan að renna út þegar Garðar Gunnlaugsson nýtti sér vel klaufaskap Stefáns Loga Magnússonar í markinu.

Stefán Logi kom út úr teignum til að skalla frá útspark Árna Snæs Ólafssonar í Skaga markinu en það tókst ekki betur hjá honum en boltinn fór beint til Garðars.

Garðar var langt fyrir utan teig en var fljótur að hugsa og skaut boltanum yfir Stefán Loga og í markið.

Garðar var ekki með þessu aðeins að vinna KR-liðið heldur einnig Arnar Gunnlaugsson bróður sinn sem er nýtekinn við sem einn af aðstoðarþjálfurum Bjarna Guðjónssonar.

Það er hægt að sjá öll mörkin í leiknum hér fyrir neðan.



Mörkin úr leik KR og ÍA í 8. umferð Pepsi-deildar karla

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×