Skoðun

„Þjóðhetjurnar“ - Óður til strákanna okkar á EM

Ívar Halldórsson skrifar
Þegar okkar landsmenn vinna dáðir á erlendri grundu er við hæfi að heiðra þá með einhverjum hætti. Strákarnir okkar hafa svo sannarlega vakið heimsathygli með seiglu sinni, hugprýði og hetjuskap á EM. 

Hátterni þeirra og drengskapur hefur verið til fyrirmyndar á mótinu og ég verð að viðurkenna að ég er mjög stoltur af þeim. Það er ekki á hverjum degi sem maður fyllist af einhvers konar yndislegri þjóðarást - en svo sannarlega er ég stoltur af því að vera Íslendingur í dag í ljósi afreka strákanna á EM.

Þessi óður er mín leið til að þakka strákunum okkar, og að sjálfsögðu einnig Gumma Ben, fyrir frábæra og jákvæða landkynningu og fyrirmyndar frammistöðu á EM-mótinu: 

Þjóðhetjurnar

Skunda þeir frá skrýtnu skeri

Skotfastir og skeleggir

Drengir dáðir

Í EM skráðir

Massaðir sem múrveggir

Hræðast hvorki hót né hæðni

Hrikalega hógværir

Hvergi smeykir

Klárir, keikir

Engir vegir ófærir

Víkingar á völdum velli

Virtir, vænir, vongóðir

Heilla heiminn

draga ei seiminn

Hæverskir og hugmóðir

Hannes Halldórs hvergi hopar

hetja klár í harkinu

Fram sig leggur

Eins manns veggur

Martröð manna í markinu

Gummi Ben er göldrum gæddur

Geðshræringu glittir í

þegar liðið

eftir miðið

hornið marksins hittir í

Hetjurnar okkar skjótt hrifu heiminn

Nú hugur margra á heima hér

Með lúðra og fána

syngjum "Öxar við ána"

Guðs Ísland, nú enginn mun gleyma þér

(Höfundur: Ívar Halldórsson)




Skoðun

Sjá meira


×