Lífið

Hárlokkur Bowie og gítar Prince boðnir upp

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Hárlokkur Bowie reyndist verðminni en gítar úr eigu Prince.
Hárlokkur Bowie reyndist verðminni en gítar úr eigu Prince. Vísir/Getty
Rafmagnsgítar sem Prince lét sérsmíða fyrir sig og lokkur úr hári David Bowie voru á meðal hluta sem boðnir voru upp á uppboði í Bandaríkjunum um helgina.

Gítarinn sem kallast „gula skýið“ er sagður hafa verið á meðal uppáhaldshljóðfæra Prince en hann seldist á rúmar 17 milljónir króna. Það var eigandi bandaríska ruðningsliðsins Indianapolis Colts sem keypti gripinn. Gítarinn var smíðaður árið 1980 og notaði tónlistarmaðurinn hann ítrekað á tónleikum á níunda áratugi síðustu aldar.

Hárlokkur Bowie reyndist vera minna virði en gítarinn en hann seldist á „aðeins“ 2,3 milljónir króna. Lokkurinn var í eigu Madam Tussauds vaxmyndasafnsins og var notaðu á sínum tíma til þess að gera eftirmynd af hári Bowie fyrir vaxdúkku í hans mynd. Dúkkan var gerð árið 1983.

Eins og allir vita létust báðir tónlistarmennirnir fyrr á þessu ári. Bowie úr krabbameini en Prince vegna ofneyslu verkjalyfja.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×