Erlent

Frakkar henda rússneskum vandræðagemlingum úr landi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Shprygin og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, fyrir nokkrum árum.
Shprygin og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, fyrir nokkrum árum. Vísir/AFP
Alexander Shprygin er á meðal tuttugu stuðningsmanna rússneska landsliðsins í knattspyrnu sem hefur verið vísað frá Frakklandi vegna óeirðanna í Marseille á dögunum.

Hann er hins vegar enginn venjulegur stuðningsmaður því hann hefur ferðast með rússneska knattspyrnusambandinu og hefur ákvörðuninni verið mótmælt í Moskvu. Frakkar vísa til þess að um öryggisráðstöfnun sé að ræða. BBC greinir frá.

Fótboltabullur úr röðum Rússa og Englendinga lenti saman og gott betur en það fyrir leik, á meðan á leik stóð og eftir að karlalandslið þjóðanna mættust í Marseille á mánudag. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli en í leikslok réðust rússneskir aðdáendur inn á svæði ætlað enskum stuðningsmönnum og slösuðust áhorfendur. Lögregla beitti táragasi til að sundra stuðningsmönnum.

Shprygin, sem er einn leiðtoga öfga hægri sinnaðra stuðningsmanna Rússa, hefur verið myndaður þar sem hann sendir nasistakveðjur og þá hefur verið haft eftir honum að landslið Rússa á HM 2018, sem fram fer í Rússlandi, eigi að vera skipað leikmönnum af slavneskum uppruna. Hefur hann gert athugasemdir við að leikmenn með afrískan uppruna spili fyrir hönd Rússlands.

Frönsk yfirvöld segja Shprygin og hina stuðningsmennina nítján verða senda úr landi á næstu fimm dögum en þangað til eru þeir í gæslu yfirvalda.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur áFacebook,Twitterog Snapchat (sport365).



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×