Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍA - Þróttur 0-1 | Loksins vann Þróttur á Akranesi

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Norðurálsvellinum skrifar
Dion Jeremy Acoff er lykilmaður í sóknarleik Þróttar.
Dion Jeremy Acoff er lykilmaður í sóknarleik Þróttar. vísir/anton
Þróttur lagði ÍA 1-0 í fallbaráttuslag á Akranesi í kvöld í sjöundu umferð Pepsí deildar karla í fótbolta með marki á síðustu mínútu leiksins.

Varamaðurinn Aron Þórður Albertsson skoraði sigurmarkið af stuttu færi en markið er vægast sagt umdeilt því Brynjar Jónasson fékk boltann í höndina áður en hann lagði boltann á Aron.

Sigurður Óli Þórleifsson varadómari sem kom inn fyrir Valdimar Pálsson snemma leiks sá ekkert athugavert við atvikið og dæmdi mark.

Þróttur sótti mikið í seinni hálfleik og pressaði mikið á ÍA en Þróttur vann sinn fyrsta sigur á ÍA á Akranesi í efstu deild, í 15. tilraun.

Þróttur er nú í 10. sæti deildarinnar með 7 stig, þremur stigum meira en ÍA í sætinu fyrir neðan sem er fallsæti.

Af hverju vann Þróttur?

Vendipunkturinn í leiknum var mögulega á fyrstu mínútum hans þegar Valdimar Pálsson dómari fór meiddur útaf og Sigurður Óli Þórleifsson tók við hans starfi. Sigurður Óli dæmdi reyndar leikinn vel allt þar til hann missti af augljósri hendi á Brynjari Jónassyni í aðdraganda sigurmarksins. Eitthvað sem Sigurður Óli og dómaratríóið allt hefði átt að sjá því boltinn fór augljóslega af fætinum á Brynjar og upp í útrétta hönd hans áður en hann gaf á Aron Þórð Albertsson sem skoraði sigurmarkið af miklu öryggi.

Þróttur var meira með boltann og sótti mikið en ÍA fékk færin til að skora. Garðar Gunnlaugsson fékk færi til að koma ÍA yfir og geta Skagamenn sjálfum sér um kennt að hafa ekki nýtt færin. ÍA fékk í raun betri færi þó Þróttur hafi sótt meira en að lokum eru það mistök dómara sem ráða úrslitum.

Þessir stóðu upp úr

Arnar Darri Pétursson tók sæti Trausta Sigurbjörnssonar í marki Þróttar og er erfitt annað en að hrósa Gregg Ryder þjálfara Þróttar fyrir þá ákvörðun því Arnar Darri var frábær í markinu.

Arnar sem kom frá Stjörnunni í sumar var að fá sitt fyrsta tækifæri í marki Þróttar og greip það líkt og nánast allar fyrirgjafir ÍA í leiknum. Arnar var öryggið uppmálað, fljótur að koma boltanum í leik og varði vel þegar á þurfti að halda.

Dion Acoff og Vilhjálmur Pálmason kantmenn Þróttar voru einnig öflugir í leiknum. Þeir eru báðir fljótir og áttu varnarmenn ÍA oft í vandræðum með þá þó stundum hafi vantað upp á síðustu sendinguna í góðum stöðum.

Tryggvi Hrafn Haraldsson stóð upp úr í liði ÍA. Hann var sí skapandi fram á við þó hann hefði mátt nýta að minnsta kosti annað af tveimur færum sem hann fékk í fyrri hálfleik.

Hvað gekk illa?

ÍA gekk illa að nýta færin. Þróttur var meira með boltann en ÍA beitti skyndisóknum af miklum móð og voru þær markvissar og öflugar en liðinu voru mislagðir fætur fyrir framan mark Þróttar.

Hvað gerist næst?

Nú er ljóst að ÍA verður í fallsæti þegar Evrópumeistaramótið í Frakklandi hefst. Liðið er þremur stigum á eftir Þrótti í sætinu fyrir ofan og á ekki möguleika á að ná Þrótti að stigum fyrr en 23. júní þegar liðið sækir KR heim.

Skaginn á í erfiðleikum með að skora og það þó Garðar Gunnlaugsson sé heill heilsu. Liðið þarf að finna ráð við markaleysinu í fríinu fram að næsta leik ætli liðið sér ekki að lenda í stórkostlegum vandræðum í næstu umferðum.

Daginn eftir leik KR og ÍA tekur Þróttur á móti Fjölni en þetta var annar sigur Þróttar á tímabilinu og það sem meira er fyrsti sigur Þróttar á ÍA í efstu deild í 15 tilraunum á Akranesi.

Þróttur er aðeins stigi á eftir Víkingi og tveimur frá KR í sætinu þar fyrir ofan en þó liðið geti látið sig dreyma um að komast yfir nágrana sína í borginni í næstu umferð er ráðlegast fyrir félagið að halda sig á jörðinni og hugsa ekki of langt fram í tímann þó sigurinn í kvöld hafi verið góður.

Gregg Ryder: Áttum heppni inni

„Mjög mikilvæg þrjú stig gegn liði sem var líka með fjögur stig. Sálrænt er það mjög stórt að koma frá Akranesi með þrjú stig,“ sagði Gregg Ryder þjálfari Þróttar eftir sigurinn mikilvæga í kvöld.

„Ég vona að við byggjum á þessu í framhaldinu,“ bætti Ryder við en Þróttur er nú þremur stigum frá fallsæti og aðeins stigi á eftir Víkingi og tveimur stigum frá KR.

Hinn enski þjálfari Þróttar lét það sig litlu varða þó þetta væri fyrsti sigur Þróttar á ÍA í 15 tilraunum í efstu deild hér á Akranesi.

„Ég vissi ekki um það og okkur er alveg sama hvað gerist í fortíðinni. Við erum komin með nýja sigurhugsun  hjá félaginu og horfum fram á við.

„Frammistaðan var mjög góð í leiknum í kvöld. Við vitum að það er líkamlega erfitt að mæta ÍA hér og lykillinn er að leika boltanum eftir jörðinni. Við vorum þeim jafnfætis í baráttunni og spiluðum frábæran fótbolta,“ sagði Ryder sem sagðist ekki sjá hvort boltinn hafi farið í höndina á Brynjari Jónassyni í sigurmarkinu.

„Ég sá þetta ekki en af þetta var hendi þá var það heppni en miðað við það sem gerðist í síðasta leik hjá okkur þá áttum við þessa heppni inni. Það var kominn tími á það.“

Gunnlaugur: Það sjá þetta allir

Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA var að vonum allt annað en sáttur við sigurmark Þróttar á Akranesi í kvöld.

„Ég sá þetta ágætlega. Ég var í sömu stöðu og annar aðstoðardómarinn og fjórði dómarinn og þetta var klárt hendi,“ sagði Gunnlaugur eftir leikinn.

„Það sem er verst í þessu er að eftirlitsdómarinn viðurkennir þetta hér á leiðinni upp áðan að þetta hafi verið klárt hendi. Það er með ólíkindum að á árinu 2016 þegar allir eru með samskiptatæki og tala saman allan leikinn að menn skuli ekki hjálpa honum með þetta.

„Það sjá þetta allir. Þróttarabekkurinn er hálf hlæjandi. Aðstoðardómarinn og fjórði dómarinn sem reyndar gat ekki lifað af þennan leik og þurfti að fara útaf. Þeir eru að tala saman allan leikinn um alsl konar atvik. Dómarinn á að vera í betri stöðu og það þarf að hjálpa honum með þetta.

„Það svekkjandi að þetta hafi skilið á milli í kvöld,“ sagði Gunnlaugur en liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn í harðri fallbaráttu þó enn sé mikið eftir af mótinu.

„Við byrjuðum leikinn illa en komum ágætlega inn í þetta. Við sköpuðum fullt af færum í fyrri hálfleik og gerðum það líka í seinni hálfleik þó Þróttur hafi vissulega verið meira með boltann. Við fengum afgerandi færi til klára þennan leik og reyndar Þróttarar líka.

„Ég er svekktur að ná ekki marki á þá og taka forystuna og gera atlögu að því að vinna þennan leik en það er grautfúlt að tapa á þessu.“

ÍA á í vandræðum með að skora. Liðið hefur aðeins skoraði 5 mörk í 7 umferðum en liðið átti í svipuðum vandræðum framan af móti í fyrra.

„Það er ljóst að við erum að skapa færi í þessum leik. Við sköpum færi á móti Víkingi líka og í fleiri leikjum í sumar. Þetta mun detta. Mörkin munu koma og úrslitin með en þetta er súrt eins og þetta endar í kvöld,“ sagði Gunnlaugur að lokum.

Arnar Darri: Ég er best geymda leyndarmálið

Arnar Darri Pétursson kom inn í byrjunarlið Þróttar og greip tækifærið með báðum höndum en hann hélt hreinu í sigri Þróttar á ÍA í kvöld og var mjög öruggur í öllum sínum aðgerðum.

„Ég kom til Þróttar til að fá tækifæri. Ég er mjög ánægður með innkomuna,“ sagði ánægður Arnar Darri.

„Ég hef ekki mikið fengið að spila síðan ég kom heim til Íslands. Ég fékk þessa sénsa hjá Stjörnunni og fannst ég hafa tekið þá.

„Ég hef sýnt þetta áður. Ég gerði það oft með Stjörnunni en svo var maður settur aftur á tréverkið. Atli Sigurjónsson sagði að vinstri fóturinn á sér væri best geymda leyndarmálið í íslenskum fótbolta. Ég er ósammála. Hérna er það,“ sagði Arnar Darri og benti glettinn á sjálfan sig.

„Að sjálfsögðu er það þjálfarinn sem velur liðið. Hjá Stjörnunni var það ekki mitt. Ég átti aldrei að fá að spila. Hérna eru tækifærin sem ég vil fá. Ég geri atlögu að því á æfingum og ég ætla að halda stöðunni en að sjálfsögðu er það Gregg (Ryder) sem á endanum ákveður það.“

Þróttur var meira með boltann í leiknum og sótti mikið en engu að síður hafði Arnar Darri nóg að gera í leiknum.

„Alveg klárlega. Við vissum hvað ÍA myndi reyna og það er ein ástæðan fyrir því að þjálfarinn setti mig inn. Það eru fyrirgjafir. Þeir dæla boltanum inn í öllum leikjum og eru með þessa lurka frammi í hornum.

„Mér fannst ég eiga mjög vel við þetta. Ég er bestur í fyrirgjöfum. Er sterkur í loftinu,“ sagði Arnar Darri réttilega en hann greip oft vel inn í leiknum og stjórnaði teignum vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×