Fótbolti

Eiður Smári: Ef örvæntingin kemur skorar maður ekki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. vísir/getty
Eiði Smára Guðjohnsen var vel fagnað á Laugardalsvelli í kvöld, ekki síst þegar hann skoraði fjórða og síðasta markið í 4-0 sigri Íslands á Liechtenstein.

Hann var þó búinn að brenna af tveimur góðum færum áður en markið kom.

„Ég var ekkert farinn að efast. Ég hafði komið mér í nokkur góð færi, færi sem við sköpuðum okkur sem liðsheild,“ sagði Eiður Smári í kvöld.

„En þegar það er farið að hrökkva af 1-2 leikmönnum á leiðinni inn þá fer maður að velta fyrir sér hvort að markið komi nokkuð í dag. En ef maður byrjar að örvænta þá koma mörkin ekki.“

Hann segir þó að honum þykir vænt um að hafa skorað í leiknum í kvöld.

„Við vorum þrír framherjar sem spiluðum í kvöld og skoruðum allir. Það var gott.“

„Það er líka alltaf gott að skora fyrir landsliði og á Laugardalsvellinum. En ég veit ekki hvort það var sérstakara í dag en áður. Ég er orðinn svo gamall - það vilja greinilega allir að ég skori,“ sagði hann og hló.

Hann segist þó ekki hafa upplifað leikinn sem kveðjuleik.

„Ég sagði fyrir leik að þetta væri ekki móment til að spá í því. Ef þetta er síðasti leikurinn minn á Laugardalsvelli þá höldum við upp á það síðar. En við erum núna í miðjum undirbúningi og þar á einbeitingin að vera á hópnum, ekki einstökum leikmönnum.“

Eiður Smári segist ánægður með stöðuna á hópnum svo skömmu fyrir EM í Frakklandi.

„Það var munur á að sjá orkuna í mönnum í kvöld miðað við leikinn gegn Noregi [sem tapaðist 3-2]. Það höfðu margir gott af því að fá 90 mínútur í kvöld.“

„Við erum meðvitaðir um að við munum ekki fá svona andstæðing á EM en við lögðum upp með ýmilsegt í kvöld sem gekk heilt yfir vel eftir. Það voru líka engin meiðsli sem var jákvætt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×