Golf

Tiger Woods ekki með á U.S. Open

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tiger Woods.
Tiger Woods. Vísir/Getty
Tiger Woods verður ekki með opna bandaríska meistaramótinu í golfi sem hefst í næstu viku á Oakmont-vellinum. Tiger er enn að jafna sig eftir bakaðgerð.

Tiger mun missa af U.S. Open mótinu í þriðja sinn á síðustu sex árum en hann hefur þrisvar sinnum unnið þetta risamót á ferlinum.

„Ég er á fullu að vinna í því að ná mér góðum en ég er bara ekki líkamlega tilbúinn að keppa á U.S. Open eða á Quicken Loans National mótinu," sagði Tiger Woods í yfirlýsingu en síðarnefnda mótið fer fram viku síðar. „Ég er að ná framförum en er ekki enn tilbúinn í það að keppa á mótum," sagði Tiger.

Tiger Woods er orðinn fertugur en hann er að jafna sig eftir tvær bakaðgerðir sem hann fór í síðasta haust. Hann fór í seinni aðgerðina 28. október. Tiger hefur ekki keppt á móti síðan í ágúst síðastliðnum þegar hann varð í 10. sæti á Wyndham-mótinu.

Tiger Woods hefur unnið 79 PGA-titla og fjórtán risamót á ferlinum en eftir að hann missir af þessu opna bandaríska móti þá hefur hann misst af átta risamótum á ferlinum vegna meiðsla.

Það er óvissa um hvenær Tiger kemur til baka og svo gæti vel farið að hann verði ekkert með á þessu tímabili. Hann hefur samt verið meira áberandi á síðustu vikum og spilaði meðal annars fimm holur á Bluejack National mótinu 25. apríl. Þess vegna voru upp vangaveltur um hvort að hann gæti spilað á U.S. Open en nú er ljóst að ekkert verður af því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×