Íslenski boltinn

Ejub: Meira en kraftaverk ef við höldum Víkingi í efstu deild

Ingvi Þór Sæmundsson í Kaplakrika skrifar
Ejub og strákarnir hans eru komnir með 11 stig.
Ejub og strákarnir hans eru komnir með 11 stig. vísir/daníel
Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ó., var að vonum hæstánægður með stigið sem hans menn náðu í gegn FH í kvöld.

„Fyrirfram hefði ég alltaf tekið stig hér og mér fannst við vinna fyrir því,“ sagði þjálfarinn sem fannst Ólsarar spila vel í seinni hálfleik.

„Við héldum skipulagi og spiluðum taktískt mjög vel. Og við vissum að ef FH kláraði ekki leikinn myndum við fá einhver færi til að skora.

„Ég sagði við mína menn að FH er með betra lið og verður alltaf með betra lið en ef við höldum skipulagi og FH leyfir okkur að koma inn í leikinn eigum við möguleika.“

Ejub er skiljanlega sáttur með framlag Hrvoje Tokic sem skoraði jöfnunarmarkið í kvöld. Króatinn er kominn með sex mörk í sumar og er markahæstur í Pepsi-deildinni.

„Það er alltaf gott að hafa mann sem skorar mörk og hann gerði það í dag. En mér fannst við spila sem lið í dag og vorum skynsamir,“ sagði Ejub sem er ósáttur með leikjaálagið sem er á liðunum í Pepsi-deildinni þessa dagana.

„Ég botna ekki í þessu. Við erum að spila sjö leiki á 30 dögum og þetta var fimmta ferðalagið okkar. Ég fatta ekki tilganginn, þetta vinnur nánast á móti leikmönnum,“ sagði Ejub en hans menn spiluðu í 120 mínútur gegn Stjörnunni á fimmtudaginn.

„Það liggur við að maður þurfi að hafa 25 manna hóp til að klára mótið. Í gær gat ég varla stillt upp liði.

„Við erum rosalega sáttir með uppskeruna og ég er búinn að segja það, og fer ekki ofan af því, að það er meira en kraftaverk ef við náum að halda Víkingi í efstu deild,“ sagði Ejub að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×