Innlent

Búist við allt að 20 stiga hita á Norðaustur- og Austurlandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Hitaspá Veðurstofu Íslands fyrir laugardag.
Hitaspá Veðurstofu Íslands fyrir laugardag. Vísir/Vedur.is
Útlit er fyrir suðlægum áttum út vikuna og munu íbúar á Norðausturlandi njóta góðs af því ef marka má spá Veðurstofu Íslands sem á von á töluverðum hita á því svæði í vikunni. Á morgun er búist við 5 – 14 stiga hita á landi en allt að 18 stigum norðaustan – og austanlands.

Á fimmtudag er hins vegar gert ráð fyrir að hiti geti náð allt að 20 stigum norðaustan- og austanlands og er svipað upp á teningnum á föstudag og laugardag. Á sunnudag og mánudag er hins vegar búist við 6 til 14 stiga hita þar sem hlýjast verður á Suðausturlandi. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á morgun:

Suðaustan 8 -15 metrar á sekúndu en staðbundið allt að átján metrum á sekúndu annað kvöld en áfram verður bjartviðri fyrir austan. Hiti 5 til 14 stig, en að 18 stigum norðaustan- og austanlands.

Á miðvikudag:

Sunnan 10-18 m/s framan af degi og rigning, en þurrt að kalla um landið austanvert. Snýst í suðvestan 5-13 eftir hádegi og dregur úr úrkomu. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast á Austurlandi.

Á fimmtudag:

Suðvestanátt, víða 10-15 m/s. Dálítil væta og hiti 8 til 12 stig, en þurrt að mestu norðaustan- og austanlands og hiti 14 til 20 stig.

Á föstudag:

Sunnan 8-15 og rigning, sums staðar talsverð vestantil á landinu. Þurrt að kalla um landið norðaustan- og austanvert. Hiti breytist lítið.

Á laugardag:

Minnkandi suðlæg átt, rigning og hiti 7 til 12 stig, en bjartviðri norðaustantil og hiti 14 til 20 stig.

Á sunnudag og mánudag:

Vestlæg átt og dálitlir skúrir, en þurrt á austurhelmingi landsins. Hiti 6 til 14 stig, hlýjast á Suðausturlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×