Íslenski boltinn

Óttar skoraði tvö í bikarsigri Víkinga sem hvíldu Gary

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óttar Magnús Karlsson var á skotskónum á Ásvöllum í kvöld.
Óttar Magnús Karlsson var á skotskónum á Ásvöllum í kvöld. Vísir/TómasÞ
Óttar Magnús Karlsson skoraði bæði mörkin þegar Víkingar tryggðu sér sæti í 16 liða úrslitum Borgunarbikars karla í kvöld.

Víkingar unnu þá 2-1 sigur á 1. deildarliði Hauka á Ásvöllum þar sem Víkingar voru komnir með tveggja marka forystu eftir rúman hálftíma. Haukarnir minnkuðu muninn í lokinn en Víkingarnir áttu þá að vera búnir að skora fleiri mörk úr fjölda góðra færi sem þeir fengu.

Milos Milojevic, þjálfari Víkinga, leyfði sér að hvíla Gary John Martin í leiknum og þess í stað voru ungu sóknarmenn Víkingsliðsins áberandi í kvöld.

Óttar Magnús Karlsson skoraði bæði mörkin sín á fyrstu 32 mínútum leiksins en hann fylgdi eftir skalla Viktors Jónssonar í fyrra markinu á 20. mínútu og skoraði eftir sendingu Stefáns Þórs Pálssonar á 31. mínútu.

Ungu strákarnir í framlínu Víkingsliðsins voru mikið í færum það sem eftir lifði leiksins en náðu þó ekki að bæta við mörkum.

Viktor Jónsson skaut framhjá úr dauðafæri, átti skalla sem var varin af stuttu færi og skaut síðan í slána. Honum var hreinlega fyrirmunað að skora í kvöld og settist síðan á bekkinn eftir klukkutíma leiks.

Erlingur Agnarsson kom inná í hálfleik og hann fékk færin í þeim síðari. Fyrst skaut hann yfir úr dauðafæri og svo náði hann ekki að nýta gott færi einn á móti markmanni.

Haukarnir settu smá spennu í leikinn með því að minnka muninn á 88. mínútu þegar Aron Jóhannsson bjó sér til færi í teignum og vippaði skemmtilega yfir  Róbert Örn Óskarsson í markinu.

Haukarnir náðu þó ekki að refsa Víkingunum fyrir að nýta ekki öll þessi færi því Víkingar fögnuðu 2-1 sigri og sæti í 16 liða úrslitum keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×