Íslenski boltinn

Þvæla að viðhald á gervigrasi sé minna en á alvöru grasi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri FH, bendir á að kostnaðurinn við gervigras er ekki minni heldur en við alvöru gras en mikil umræða um gervigras hefur sprottið upp eftir fyrstu umferðir Pepsi-deildar karla.

FH-ingar spila á grasi og ætla sér ekki að breyta því en völlur liðsins er í frábæru standi miðað við árstíma enda vel haldið utan um hann. „Við erum í góðu samstarfi við Golfklúbbinn Keili og höfum verið það síðan 1990. Þeir eru með yfirumsjón yfir vellinum og svo vinnur vallarstjórinn okkar mjög náið með þeim,“ sagði Birgir í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Menn vilja vera á grasi. Menn fara í æfingaferðir erlendis til að spila á grasi en ekki gervigrasi og öll stærstu lið Evrópu spila á grasi.“

Birgir segir það ekki ódýrara að leggja gervigrasvöll og halda honum við. „Fyrst og fremst er það stofnkostnaðurinn. Það kostar um 130 milljónir að leggja gervigrasvöll með undirlagi og öllu saman. Til að geta nýtt það sem æfingasvæði allan veturinn þarftu flóðljós og almennileg flóðljós kosta um 100 milljónir. Þarna ertu kominn með 230 milljónir í byrjunarkostnað,“ sagði Birgir.

„Ofan á þetta þarftu viðhald. Það þarf að bursta völlinn að lágmarki þrisvar sinnum í viku. Það er algengur misskilningur að viðhald á gervigrasi sé minna en á alvöru grasi. Það er bara þvæla.“

„Ég veit ekki um neitt bæjarfélag sem getur hent út 230 milljónum með vinstri. Svo þarf að hafa íhuga að ef menn vilja keppa á gervigrasi og hafa það sem líkast alvöru grasi þarf að skipta því út á þriggja til fjögurra ára fresti. Það kostar ekki 130 milljónir en kannski 50 milljónir. Þennan pening þurfa menn að taka inn í jöfnuna,“ sagði Birgir Jóhannsson.

Alla fréttina má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×