Körfubolti

Durant og Westbrook fóru á kostum er OKC sendi San Antonio í sumarfrí

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Oklahoma City Thunder komst í nótt í úrslitaeinvígi vesturdeildar NBA þegar liðið lagði San Antonio Spurs, 113-99, í sjötta leik liðanna í undanúrslitum. OKC vann einvígið í sex leikjum, 4-2.

Eftir að tapa illa, 124-92, í fyrsta leiknum settu leikmenn OKC sig í gírinn og unnu fjóra af næstu fimm leikunum í einvíginu. Þar af unnu þeir tvo leiki í San Antonio þar sem Spurs tapaði aðeins einum leik í allri deildarkeppninni.

Spurs var lang næstbesta liðið í deildarkeppninni í vetur en það vann 67 leiki af 82, aðeins sex færri en Golden State Warriors sem bætti 20 ára gamalt met Chicago Bulls með 73 sigurleikjum. Bjuggust flestir við rimmu þessara liða í úrslitum vestursins.

Kevin Durant og Russell Westbrook voru báðir frábærir í liði OKC. Durant skoraði 37 stig og tók níu fráköst en Westbrook skoraði 28 stig og gaf tólf stoðsendingar.

Steven Adams bætti við 15 stigum og ellefu fráköstum og Andre Robertsson skilaði sínu með 14 stigum og sjö fráköstum.

Kawhi Leonard var stigahæstur Spurs með 22 stig auk þess sem hann tók níu fráköst og LaMarcus Aldridge skoraði 18 stig og tók fjórtán fráköst. Gamli maðurinn Tum Duncan skoraði 19 stig í því sem gæti verið síðasti leikur hans á ferlinum.

Oklahoma City Thunder mætir Golden State Warriors í úrslitaeinvígi vestursins þar sem fyrsti leikurinn fer fram aðfaranótt fimmtudags.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×