Handbolti

Bjarni Þór: Þetta er allavega stoðsending

Smári Jökull Jónsson á Kaplakrikavelli skrifar
vísir/vilhelm
Bjarni Þór Viðarsson átti ágætan leik í liði FH í kvöld og var sáttur með sigurinn gegn Fjölni

„Ég er mjög ánægður. Við töpuðum síðasta leik og það er sterkt að koma til baka og vera komnir með 9 stig eftir fjóra leiki. Fjölnir er með frábært lið og það er erfitt að spila á móti þeim og þess vegna mjög gott að ná að klára leikinn með sigri,“ sagði Bjarni Þór í samtali við Vísi.



„Við þurftum að laga margt eftir KR leikinn. Það voru aðallega grunnatriðin að vera nálægt mönnunum og svona. Við byrjuðum leikinn af krafti eins og við ætluðum. Við náðum að pressa þá hátt uppi og þeir náðu lítið að halda boltanum sem þeir eru góðir í fái þeir tækifæri til.“

Bjarni átti þátt í fyrra marki FH en skalli hans breytti um stefnu af varnarmanni Fjölnis og endaði í markinu.

„Ég væri til í að fá öll mörk skráð á mig. Ég flikkaði boltanum á nærstönginni en ég held að hann hafi farið í varnarmanninn. Ef þetta er ekki markið mitt þá er það allavega stoðsending, það er fínt. Ég talaði aðeins við Ívar dómara í hálfleik og hann ætlaði að skoða þetta. Vonandi gerir hann það,“ sagði Bjarni með bros á vör.

FH er með 9 stig eftir fjórar umferðir og mæta sjóðandi heitu liði Stjörnunnar í næstu umferð.

„Við erum búnir að taka sex stig af sex hér á heimavelli. En eins og ég sagði þá var þetta ekki besti leikur okkar á útivelli gegn KR í síðustu umferð. Það er erfiður leikur næst í Garðabænum. Stjarnan er búin að bæta sig mikið og styrkja sig. Það verður alvöru leikur hjá tveimur toppliðum,“ sagði Bjarni að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×