Erlent

Segir Kína „nauðga“ Bandaríkjunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Donald Trump á fundinum í Indiana í gær.
Donald Trump á fundinum í Indiana í gær. vísir/getty
Donald Trump líkti viðskiptahalla Bandaríkjanna við Kína, sem honum hefur verið tíðrætt um í kosningabaráttu sinni, við nauðgun. Það gerði hann í máli sínu á kosningafundi í Fort Wayne í Indiana-ríki í gær og vísaði þar til gífurlegs innflutnings Bandaríkjanna á kínverskum vörum.

„Við getum ekki leyft Kínverjum að halda nauðgun sinni á landinu okkar áfram, það er einmitt það sem þeir eru að gera,“ sagði Trump sem hefur reglulega sakað kínversk stjórnvöld um að hagræða gengi júansins til að grafa undan útflutningi Bandaríkjanna. Fyrir vikið séu Kínverjar að „slátra“ Bandaríkjamönnum í viðskiptum að mati auðkýfingsins.

Ef marka má erlenda umfjöllun um ummæli Trumps er þetta ekki í fyrsta skipti sem hann notar þetta orðalag um viðskiptasamband Kína og Bandaríkjanna – það gerði hann síðast árið 2011. Trump sagðist í gær þó ekki vera í vafa um að hann, yrði hann kjörinn forseti, gæti snúið taflinu við. „Við höfum réttu spilin á hendi, ekki gleyma því. Við erum eins og sparibaukur sem verið er að ræna. Við erum með spilin á hendi. Staða okkar gegn Kínverjum er sterk,“ sagði Trump áður en hann lét fyrrnefnd ummæli um nauðgun falla.

Sjá einnig: Allt sem þú þarft að vita um forkosningarnar í Bandaríkjunum

Forsetaframbjóðandinn sagði þó einnig að reiði hans beindist ekki gegn Kínverjum heldur bandarískum stjórnvöldum sem Trump sagði „stórkostlega vanhæf.“

Nauðgunarummæli Trumps verður að skoða út frá þeirri gagnrýni sem hann hefur sætt vegna stuðnings hnefaleikakappans Mikes Tysons við framboð hans.

Talsmenn Hillary Clinton, annars forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, segja Trump verða að þvo stuðning Tysons af sér í ljósi nauðgunardóms sem boxarinn hlaut árið 1992. Það hefur Trump ekki gert – þvert á móti sagði Trump á dögunum að Tyson væri ekki nauðgari. 

Kosið verður í Indiana á morgun þar sem Repúblikanar berjast um 57 kjörmenn. Trump er sem fyrr líklegastur til að hreppa útnefningu flokksins fyrir forsetakosningarnar vestanhafs í haust.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×