Handbolti

Hanna: Ég er alveg búin á því og titra bara

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Ég er alveg búin á því, ég get alveg sagt það núna,“ segir Hanna Guðrún Stefánsdóttir, leikmaður Stjörnunnar, eftir sigurinn í kvöld.

Stjarnan vann Hauka, 23-22, í oddaleik liðanna í undanúrslitum á Ásvöllum í kvöld og er liðið komið í úrslitaeinvígið gegn Gróttu.

„Ég titra bara, ég er svo þreytt. Síðustu átta mínúturnar voru bara djók í kvöld og enginn handbolti spilaður þá. Ég held að hausinn á okkur hafi bara reddað þessu í kvöld og sem betur fer börðumst við eins og ljón.“

Hanna segir að taugarnar hjá báðum liðum hafi verið vel þandar í kvöld.

„Við vorum að taka léleg skot undir lokin og þá var auðveldara fyrir hana að verja í markinu. Síðan reyndum við bara eins og við gátum að standa vörnina vel.“

Hanna tryggði Stjörnunni sigurinn þegar hálf mínúta var eftir af leiknum úr vítakasti.

„Ég hugsaði bara ekki neitt þegar ég steig á punktinn. Ég var bara með tómann hausinn og ætlaði bara að skora,“ segir Hanna sem lék í kvöld sinn 99. leik í úrslitakeppni á Íslandi.

„Ég einmitt frétti það í gær og hafði ekki hugmynd um þetta,“ segir hún að lokum en einvígið gegn Gróttu leggst vel í reynsluboltann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×