Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segir í samtali við Vísi að rannsókn sé vel á veg komin. Reikna megi með því að ákvörðun um hvort ákært verði í málinu liggi fyrir fljótlega. Lögreglumaðurinn er sakaður um að hafa þegið greiðslur og hinn aðilinn grunaður um að hafa borið fé á lögreglumann. Báðir neita sök.

Málið er forvitnilegt fyrir margra hluta sakir en það heyrði til tíðinda þegar rannsóknarlögreglumaðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald í lok síðasta árs. Var hann í varðhaldi á Litla-Hrauni í viku, yfir áramótin. Daginn sem honum var sleppt var annar aðili, sem hlotið hefur dóm fyrir fíkniefnabrot og hefur verið til rannsóknar hjá fíkniefnadeildinni undanfarin ár, úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald.
Fáheyrt er að lögreglumenn séu úrskurðaðir í gæsluvarðhald og hafi það gerst áður er ljóst að síðan hafa liðið áratugir. Hvers vegna báðir aðilar voru ekki settir í varðhald á sama tíma heldur hvor á eftir öðrum vekur einnig athygli. Lykilatriðið í rannsókn málsins, og raunar kveikjan að málinu, er upptaka þar sem mennirnir ræða saman. Í samtalinu er minnst á peningaupphæð sem þykir renna stoðum undir að lögreglumaðurinn hafi þegið greiðslu frá hinum aðilanum.

Samkvæmt heimildum Vísis sýnist sitt hverjum um það sem heyrist á upptökunum. Sá sem lögregla telur tengdan fíkniefnaheiminum minnist á upphæðina „100 kall“. Telja sumir það benda til þess að óeðlileg tengsl hafi verið á milli mannanna og peningagreiðslur átt sér stað. Á sama tíma segja aðrir upptökuna óskýra og þótt minnst sé á peningaupphæð sé það engin sönnun fyrir því að greiðslur hafi átt sér stað.
Samtalið var tekið upp án vitundar rannsóknarlögreglumannsins samkvæmt heimildum Vísis. Í hvaða tilgangi liggur ekki fyrir en líklegt má telja að hinn aðilinn hafi viljað eiga slíka upptöku ef það gæti nýst honum síðar.
Upptakan barst lögreglu og ríkissaksóknara í desember sem úrskurðaði í framhaldi báða aðila í gæsluvarðhald eins og minnst er á að framan. Því virðist hagur hins grunaða sem tók upp samtalið hafa verið lítill af því að upptakan barst í hendur lögreglu enda gæti hann verið ákærður innan tíðar.
Samkvæmt heimildum Vísis höfðu mennirnir verið í óformlegu upplýsingasambandi en þeir þekkjast frá því þeir stunduðu íþróttir saman.