Íslenski boltinn

Karl Brynjar: Loksins heimtað að við vinnum leiki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eins og fram kom í morgun spáir Íþróttadeild 365 nýliðum Þróttar falli úr Pepsi-deildinni. Liðið sem varð í öðru sæti 1. deildar síðasta sumar hafnar í neðsta sæti á komandi tímabili gangi spáin eftir.

„Það kemur engum í Þrótti á óvart að okkur sé spáð falli og sérstaklega síðasta sæti miðað við hvernig gengið hefur verið í vetur. Við vorum líka bara í öðru sæti í 1. deildinni þannig þetta er alveg eðlileg spá,“ segir Karl Brynjar Björnsson, miðvörður Þróttar, en er ekkert erfitt að taka svona spám?

„Alls ekki. Við höfum engu að tapa. Þetta skiptir okkur engu máli. Við hlægjum bara að þessu og komum sterkari inn í deildina fyrir vikið,“ segir han.

„Miðað við hvernig fólk talar um Þrótt þá erum við með lang lélegasta liðið í deildinni en við teljum okkur ekki vera það. Við þurfum að sanna það.“

„Auðvitað mátti búast við að það yrðu neikvæðar fréttir en við höfum fulla trú á því sem við erum að gera og það er enginn byrjaður að ræða það að við séum að fara niður. Við komum upp í þessa deild til að halda okkur uppi á fyrsta ári og ætlum að gera það,“ segir Karl Brynjar.

Ekki sigur í vetur

Þróttarar áttu hörmulegt undirbúningstímabil þegar horft er á úrslitin en liðið gerði eitt jafntefli í ellefu leikjum og tapaði tíu í þremur undirbúningsmótum. Er þetta ekkert til að hafa áhyggjur af?

„Gregg Ryder [þjálfari liðsins] er búinn að útskýra þetta mjög vel. Auðvitað vill maður alltaf vinna leiki en við erum ekkert að rúlla á sama liði í hverjum einasta leik og það er mikið álag. Við gerum hlutina líka öðruvísi en önnur lið,“ segir Karl Brynjar.

„Við byrjum að æfa í janúar þannig við erum kannski eftir á og skiljanlega erum við að tapa leikjum gegn liðum sem eru búin að æfa í tvo mánuði. Maður vill alltaf vinna fótboltaleiki en það er ekkert stress í okkur núna.“

„Við erum vanir þessu. Við gátum ekkert á undirbúningstímabilinu í fyrra en unnum svo átta leiki í röð. Það er engin að stressa sig á þessu.“

Finnur ekkert fyrir aldri Greggs

Karl Brynjar spilar í sumar sitt fyrsta tímabil í efstu deild á fjórtán ára ferli en hann er viss um að geta spilað í deildinni. „Ég er búinn að spila oft á móti öllum þessum leikmönnum sem ég er að fara að mæta í sumar. Ég held að ég sé alveg jafn fær til að spila í þessari deild og allir aðrir,“ segir hann, en hvað með liðið?

„Það eru miklir hæfileikar í liðinu. Ef við spilum eins og eigum að spila þá erum við að fara að gera hluti í þessari deild. En ef við spilum ekki okkar fótbolta þá auðvitað förum við beinustu leið niður.“

Gregg Ryder, þjálfari Þróttar, verður yngsti þjálfari deildarinnar í sumar aðeins 28 ára gamall. Hann tók við liðinu 25 ára fyrir þremur árum síðan.

„Þetta er frábær þjálfari að mínu mati. Ég hef verið með þá nokkra í gegnum tíðina en Gregg er alveg við toppinn. Hann er rosalega skipulagður og ákveðinn þegar þess þarf. Hann er líka félagi þegar þess þarf. Hann hefur því þessa réttu blöndu og svo er metnaðurinn alveg fáránlegur. Hann er aðeins yngri en sumir leikmennirnir en maður finnur ekkert fyrir því,“ segir Karl Brynjar.

„Þegar hann kemur til félagsins þá er eiginlega enginn eftir og allir vilja fara. Hann fær menn til að halda áfram og byggir ofan á það. Það er búið að skila okkur í Pepsi-deildina þannig hann er að gera eitthvað rétt.“

Mikil vakning hefur verið innan Þróttar eftir skelfilegt tímabil í fyrstu deildinni 2013 þar sem liðið var hársbreidd frá falli.

„Nú er loksins farið að heimta það að við vinnum fótboltaleiki. Maður fann fyrir því að það var ekkert vel mætt á leiki eins og 2013 en nú er hiti í mannskapnum. Fólkið vill að við vinnum og þegar leikir tapast þá heyrist í fólkinu. Það er mjög gott,“ segir Karl Brynjar.

Hvar endar Þróttur í sumar: „Við höfum ekkert talað um hvar við ætlum að enda en við ætlum ekki að enda í öðrum af tveimur neðstu sætunum. Það er alveg á hreinu,“ segir Karl Brynjar Björnsson.

Viðtal: Tómas Þór Þórðarson

Upptaka og eftirvinnsla: Ólafur Þór Chelbat, Guðni Ingi Johnsen, Garðar Örn Arnarson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×