Innlent

Páskaveðrið: Má búast við vetrarfærð yfir helgina

Birgir Olgeirsson skrifar
Margir munu leggja land undir fót um páskahelgina.
Margir munu leggja land undir fót um páskahelgina. Vísir/Stefán
Þeir sem hyggja á ferðalög milli landshluta um páskana ættu ekki að búast við sumarfæri. Rólegasta veður verður fram eftir vikunni en undir lok hennar er útlit fyrir að það kólni þegar gengur í norðan átt með snjókomu. 

Það mun því viðra vel til ferðalaga fram að föstudeginum langa en þá má búast við norðaustan átt, 10 til 15 metrum á sekúndu, snjókomu eða él fyrir norðan, en rigningu og slyddu sunnan til, einkum á Suðausturlandi.

„Leiðinlegasta veðrið eins og útlitið er núna er á laugardeginum. En útlitið er gott framan af vikunni fyrir þá sem ætla að ferðast,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, sem hvetur fólk til að fylgjast með veðurspám ef það hyggur á ferðalög milli landshluta yfir páskahelgina.

Á páskadag og á öðrum degi páska er áfram spá norðan átt með éljagangi fyrir norðan en bjart sunnanlands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á miðvikudag:


Austan 3-8 og víða dálítil rigning eða skúrir. Hiti 2 til 8 stig.

Á fimmtudag:


Norðaustan og austan 5-15 m/s, hvassast á Vestfjörðum. Rigning eða slydda með köflum, en þurrt að mestu á SV- og V-landi. Hiti 0 til 7 stig, mildast syðst.

Á föstudag:


Norðaustanátt, víða 10-15 m/s. Snjókoma eða él fyrir norðan, en rigning eða slydda S-til, einkum á SA-landi. Kólnandi veður.

Á laugardag:


Norðlæg átt og snjókoma, en úrkomulítið sunnan heiða. Hiti 0 til 5 stig við S-ströndina, annars 0 til 5 stiga frost.

Á sunnudag:

Norðanátt og él, en þurrt og bjart veður S- og SV-lands. Kalt í veðri.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×