Fótbolti

Freyr: Þetta er helvíti svekkjandi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson. vísir/valli
„Ég hef oft verið betri,“ segir svekktur landsliðsþjálfari, Freyr Alexandersson, eftir tapið gegn Kanada á Algarve-mótinu í kvöld.

Íslandi dugði jafntefli í leiknum til þess að komast í úrslitaleikinn gegn Brasilíu en varð að sætta sig við 1-0 tap.

„Þetta var helvíti svekkjandi. Leikurinn var ekki nógu góður hjá okkur. Við vorum í tómu veseni i fyrri hálfleik. Gáfum boltann mikið frá okkur og leystum pressuna þeirra illa. Það er eitthvað sem við verðum að læra af. Miðað við hversu lélegar þessar 45 mínútur voru þá áttum við kannski skilið að tapa,“ segir Freyr en var liðið nálægt því að jafna í síðari hálfleik?

Sjá einnig: Ísland ekki í úrslit á Algarve

„Okkur fannst við eiga að fá víti í fyrri hálfleik. Svo eigum við nokkur upphlaup og hálffæri í seinni en ekkert galopið færi. Við vorum samt alltaf að ógna en það gekk ekki.“

Freyr var óhræddur við að lýsa því yfir fyrir mót að liðið ætlaði sér í úrslitaleikinn og það munaði litlu.

„Ég sé ekkert eftir því. Það er hollt fyrir okkur að hugsa stórt. Það var svekkjandi að klára þetta ekki. Ef markatala hefði talið þá hefðum við farið í úrslit,“ segir Freyr en hann þarf að rífa liðið upp fyrir bronsleik gegn Nýja-Sjálandi.

„Við verðum að rísa upp. Ég held að það verði ekki vesen miðað við karakterana sem eru í liðinu. Þetta er samt próf því það er langt síðan við töpuðum. Það hefði verið gott fyrir okkur að spila við stjörnum prýtt lið Brasilíu en það verður að bíða betri tíma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×