Fótbolti

Margrét Lára: Það var munur á liðunum en við erum að nálgast stóru liðin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stelpurnar okkar í kvennalandsliðinu í fótbolta náðu ekki markmiði sínu að komast í úrslitaleik Algarve-mótsins, en þær töpuðu fyrir Kanada, 1-0, í lokaumferð riðlakeppninnar í gær.

Okkar stelpum dugði eitt stig til að komast í úrslitaleikinn eftir flotta sigra á Belgum og Dönum en þær verða að sætta sig við að spila um bronsið.

Sjá einnig:Freyr: Þetta er helvíti svekkjandi

„Við erum rosalega vonsviknar með þetta, að komast ekki í úrslitaleikinn. Við þurftum bara eitt stig og því mjög svekkjandi að ná ekki inn þessu marki sem við þurftum,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði Íslands, við SportTV eftir leikinn. „Boltinn er svona stundum. Við áttum ekki alveg okkar besta dag og þá endar þetta oft svona.“

Margrét Lára tók undir þá fullyrðingu að kanadíska liðið hefði einfaldlega verið betra í leiknum. „Ég get alveg verið sammála því. Þær eru með frábært lið sem komst í átta liða úrslit á HM í fyrra. Það sýnir bara þeirra styrkleika,“ sagði hún.

„Við erum samt að bæta okkur í hverjum leik og erum að nálgast þessi stóru lið. Það sýndi sig í dag. Það var ekki mikill munur á liðunum en þó einhver. Þær sýndu frábæra takta í markinu sem var svekkjandi fyrir okkur.“

Leikurinn um þriðja sætið verður gegn Nýja-Sjálandi en Ísland og Nýja-Sjáland hafa aldrei mæst í Alþjóðlegum fótboltaleik, hvorki í kvenna- eða karlaflokki.

„Það verður bara mjög gaman. Við erum spenntar fyrir því enda gaman að spila á móti nýjum þjóðum. Það verður örugglega ekki oft tækifæri fyrir okkur að spila á móti liði sem er hinum megin á hnettinum,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir við SportTV.


Tengdar fréttir

Freyr: Þetta er helvíti svekkjandi

"Ég hef oft verið betri,“ segir svekktur landsliðsþjálfari, Freyr Alexandersson, eftir tapið gegn Kanada á Algarve-mótinu í kvöld.

Ísland ekki í úrslit á Algarve

Íslenska kvennalandsliðið mun ekki spila til úrslita á Algarve-mótinu eftir tap, 1-0, gegn Kanada í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×