Fótbolti

Andrea Rán 23. leikmaðurinn sem byrjar inná hjá Íslandi á Algarve-mótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir.,
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir., Vísir/Andri Marinó
Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, valdi hina ungu Andreu Rán Snæfeld Hauksdóttur í byrjunarliðið sitt fyrir bronsleikinn á Algarve-mótinu í Portúgal.

Ísland mætir liði Nýja-Sjálands í leiknum um þriðja sætið en íslensku stelpurnar voru hársbreidd frá því að komast í úrslitaleikinn á móti Brasilíu.

Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir er ein af átta leikmönnum sem koma inn í byrjunarliðið frá tapleiknum á móti Kanada. Það eru bara Anna Björk Kristjánsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir sem halda sæti sínu í byrjunarliðinu.

Andrea Rán er líka 23. leikmaðurinn sem byrjar inná hjá Frey á þessu móti en hún var eini leikmaðurinn sem átti eftir að fá tækifæri í byrjunarliðinu.

Anna Björk Kristjánsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir  og Sara Björk Gunnarsdóttir eru einu leikmenn hópsins sem byrjuðu þrjá af fjórum leikjum íslenska liðsins á mótinu.

Nýja Sjáland er í 16. sæti á hinum margrómaða heimslista FIFA en liðið hefur ekki farið hærra á listanum. Liðið hefur verið í 16. – 24. sæti listans frá árinu 2003. Liðið var í riðli með Brasilíu, Rússlandi og Portúgal. Liðið vann 1-0 sigur á Portúgal, tapaði 1-0 gegn Brasilíu og gerði markalaust jafntefli við Rússland.

Ísland vann öruggan 4-1 sigur á Danmörku, vann 2-1 sigur á Belgíu en tapaði 1-0 gegn Kanada. Íslenska liðið lék seinast um bronsið árið 2014 og vann þá 2-1 sigur á Svíþjóð. Leikurinn hefst klukkan 17:30.



Byrjunarlið Íslands gegn Nýja Sjálandi:

Guðbjörg Gunnarsdóttir (Markvörður)

Elísa Viðardóttir

Anna Björk Kristjánsdóttir

Glódís Perla Viggósdóttir

Hrafnhildur Hauksdóttir

Sara Björk Gunnarsdóttir (Fyrirliði)

Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir

Fanndís Friðriksdóttir

Elín Metta Jensen

Berglind Björg Þorvaldsdóttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×