Golf

Öskubuskuævintýri á Pebble Beach - Vaughn Taylor sigraði á AT&T

Taylor fagnar ásamt fjölskyldu sinni í nótt.
Taylor fagnar ásamt fjölskyldu sinni í nótt. Getty
Vaughn Taylor kom öllum á óvart og sigraði á AT&T mótinu sem fram fór á Pebble Beach en hann lék lokahringinn á 66 höggum, sex undir pari og skaust upp fyrir Phil Mickelson sem endaði í öðru sæti.

Taylor rétt komst inn í mótið eftir að Svíinn Carl Petterson dró sig úr keppni á síðustu stundu, og nýtti tækifærið sitt svo sannarlega vel.

Grunnurinn að sigrinum voru fjórir fuglar á seinni níu holunum í gærkvöldi en þetta er í þriðja sinn sem Taylor sigrar í móti á PGA-mótaröðinni og í fyrsta sinn í 11 ár.

Fyrir sigurinn fær hann rúmlega 140 milljónir króna sem verður að tejast gott fyrir kylfing sem hefur leikið á Web.com mótaröðinni undanfarið með misjöfnum árangri.

Taylor segir þó að peningarnir skipti ekki öllu en með sigrinum fær hann atvinnuöryggi á PGA-mótaröðinni næstu tvö árin ásamt þátttökurétt á Masters mótinu sem hefur verið draumur þessa 39 ára Bandaríkjamanns undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×