Innlent

Veðurfræðingur: „Þessi snjór er ekki að fara neitt“

Atli Ísleifsson skrifar
Mikið snjóaði í nótt og eru því margir sem þurfa að skafa af bílum og moka snjó úr innkeyrslum áður en þeir halda af stað til vinnu eða annað nú í morgunsárið.
Mikið snjóaði í nótt og eru því margir sem þurfa að skafa af bílum og moka snjó úr innkeyrslum áður en þeir halda af stað til vinnu eða annað nú í morgunsárið. vísir/auðunn
„Það verður frost áfram á öllu landinu næstu dagana. Þessi snjór er ekki að fara neitt,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofunni. Mikið snjóaði í nótt og eru því margir sem þurfa að skafa af bílum og moka snjó úr innkeyrslum áður en þeir halda af stað til vinnu eða annað nú í morgunsárið.

Teitur segir að áframhald hafi verið í nótt á þessum þétta éljagangi sem var í gær. „Hann heldur eitthvað áfram fram eftir degi. Ég á von á að hann minnki kringum hádegið hérna á höfuðborgarsvæðinu, en svo eftir miðnætti kemur snjókomubakki inn á höfuðborgarsvæðið og snjóar enn meira næstu nótt.“

Hann segir að það verði frost áfram á öllu landinu næstu dagana. „Þessi snjór er ekki að fara neitt. Það sem breytist er að eftir föstudaginn þá er eindregnari norðanátt og þá er lítil sem engin úrkoma sunnan heiða. Þá verður það norðan- og austanvert landið sem fær snjóinn. Það heldur hins vegar áfram að vera frost þannig að það er ekki að sjá neina hláku. Hann fær því að vera í friði, sá snjór sem er kominn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×