Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfesti að málið væri komið til formlegrar rannsóknar. Í framhaldinu mun svo koma í ljós hvort tilefni þykji til þess að gefa út ákæru á hendur fulltrúanum fyrir brot í starfi. Ólafur Þór sagðist ekki geta tjáð sig nánar um málið.

Fréttir af því að málið væri komið á borð héraðssaksóknara bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag. Sigríður Björk Guðjónsdóttir sagði að ekki hefði náðst að fara yfir málið. Lögreglufulltrúinn er því enn við störf, nú hjá tæknideild lögreglu, en hann hefur þrívegis verður færður til í starfi á hálfu ári.
Ólafur Þór segir það alfarið lögreglustjóra að taka ákvörðun um hvort lögreglumanninum verði vikið frá störfum. Sá sem hafi rannsókn á hendi beiti sér allajafna ekki fyrir því. Um innri mál lögreglustjórans sé að ræða.
Sigríður Björk staðfestir að málið eigi sér aðdraganda hjá embættinu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðnu frá fyrrihluta síðasta árs. Þá hófst athugun á starfsháttum fulltrúans en þá höfðu níu starfsmenn fíkniefnadeildar, meirihluti samstarfsmanna mannsins, kvartað yfir honum við yfirmann sinn Friðrik Smára Björgvinsson.

Engin formleg rannsókn fór þó fram á ásökununum, fyrr en nú, fjórum árum síðar.
Tvö aðskilin mál
Rannsóknarlögreglumanni við fíkniefnadeild var vikið tímabundið frá störfum í gær en sá sat í gæsluvarðhaldi yfir áramótin. Um tvö aðskilin mál virðist vera að ræða að því frátöldu að mennirnir störfuðu innan sömu deildar.