Gæsluvarðhald yfir manninum rennur út á föstudaginn, 8. janúar, en þá mun hann hafa verið í einangrun í tíu daga. Afar fátítt er að lögreglumenn eru úrskurðaðir í gæsluvarðhald og mun það ekki hafa gerst í fleiri áratugi.
Ríkissaksóknari fer með rannsókn málsins og nýtur liðsinnis lögreglu, þó ekki starfsmanna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem lögreglumaðurinn starfar.

Ómar Örn upplýsir ekki hvað umbjóðanda hans sé gefið að sök í málinu. Hann segir skjólstæðing sinn ekki fengið að svara fyrir sakarefnið þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þess efnis.
„Ég hef óskað eftir því að sakarefnið verði borið undir hann svo að það sé hægt að leysa þetta mál,“ segir Ómar.
Frumskýrsla hafi verið tekin af lögreglumanninum daginn sem hann fór í gæsluvarðhald og svo hafi verið önnur skýrslutaka á laugardaginn.

Ómar Örn fær ekki gögn málsins afhent frá lögreglu og hefur af þeim sökum kallað eftir þeim hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Telja má ólíklegt að gögnin fáist afhent enda verst lögregla allra frétta af málinu.
Það birtist bæði í þeirri staðreynd að hvorki ríkissaksóknari né yfirmenn lögreglu hafa tjáð sig um málið og ekki síður í þeirri staðreynd að gæsluvarðhaldsúrskurðurinn yfir manninum hefur ekki verið birtur á heimasíðu Hæstaréttar. Allajafna eru gæsluvarðhaldsúrskurðir birtir á heimasíðu Hæstaréttar en þó er undantekning gerð á því ef sýnt þykir fram á að það geti spillt rannsókn málsins.
Um er að ræða reynslumikinn lögreglumann úr fíkniefnadeildinni og kom það samstarfsmönnum hans innan lögreglu, núverandi og fyrrverandi, í opna skjöldu þegar tíðindi bárust af varðhaldi yfir honum í fjölmiðlum í gær. Hann er á fimmtugsaldri og er lýst sem heiðarlegum og faglegum í starfi.