Tónlist

Tólf íslenskir flytjendur spiluðu á Eurosonic

Freyr Bjarnason skrifar
Rokkararnir í Sólstöfum tróðu upp á Eurosonic-hátíðinni í Hollandi.
Rokkararnir í Sólstöfum tróðu upp á Eurosonic-hátíðinni í Hollandi. Mynd/Florian Trykowski
Tólf íslenskar hljómsveitir og tónlistarmenn komu fram á Eurosonic-hátíðinni í Hollandi í fyrradag og voru tónleikarnir mjög vel sóttir. Mammút, Young Karin, Sóley, Júníus Meyvant, Dj Flugvél og Geimskip, Kiasmos og Sólstafir voru á meðal þeirra sem tróðu upp.

Einnig var boðið upp á pallborðsumræður um Iceland Airwaves og tónlistartengda ferðamennsku, þar sem var smekkfullt af fólki. Síðan var móttaka í leikhúsinu Stadsschouwburg þar sem Árstíðir sungu lagið Heyr himnasmiður eftir Þorkel Sigurbjörnsson, auk þess sem Júníus Meyvant söng og spilaði tvö lög.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra bauð gesti velkomna og hélt ræðu um gildi tónlistar og Jakob Frímann Magnússon, formaður FTT, kynnti nýtt myndband um íslenska tónhöfunda.

Nítján tónlistarmenn frá Íslandi eru í brennidepli á Eurosonic, sem er stærsta tónlistarráðstefna og hátíð í Evrópu og hófst á miðvikudag og lýkur í kvöld.

Margir íslenskir tónlistarmenn hafa leikið á hátíðinni á undanförnum árum en þetta er í fyrsta sinn sem Ísland er í brennidepli. Verkefnið er styrkt af ráðuneytum menningar, utanríkis, atvinnu og nýsköpunar, auk Icelandair, STEFs, Íslandsstofu og Reykjavíkurborgar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×