Innlent

Búist við stormi á morgun

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Búist er við suðaustanstormi á morgun.
Búist er við suðaustanstormi á morgun. Vísir/Vilhelm
Veðurstofan varar við stormi, meðalvindi meiri en 20 metrum á sekúndu, á landinu á morgun. Búast má við suðaustan hvassviðri og stormi á stöku stað eftir hádegi á morgun og fylgir því rigning á láglendi, sem væntanlega verður í talsverðu magni á Suðausturlandi. Á Norðurlandi er búist við minni úrkomu, en þó gæti einhver slæðst yfir, að því er segir á vef Veðurstofunnar.

Í dag tekur við sunnanátt á bilinu 5-13 metrar á sekúndu. Í athugasemd veðurfræðings segir að hún verði ekki hlý samkvæmt venjulegum mælikvarða, en það hlýni þó talsvert frá því sem var í gær, þegar frostið náði tíu stigum á öllum mælistöðvum á höfuðborgarsvæðinu, og varð mest 26 stig í Möðrudal, af stöðvum í byggð.

Á Suður- og Vesturlandi má búast við éljum, sem síðar færa sig yfir í skúri þegar hitinn skríður yfir frostmarkið. Á Norður- og Austurlandi verður úrkomulaust að mestu, en sunnanáttinni mun væntanlega ekki duga dagurinn í dag til að blása burt þunga kalda loftinu sem þar situr.

Hálka er á flestum vegum landsins, samkvæmt Vegagerðinni. Ófært er á Siglufjarðarvegi og á Hófaskarði er þungfært.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×