Grýla Guðmundur Andri Thorsson skrifar 28. desember 2015 00:00 Af einhverjum ástæðum er Grýla mér hugstæð nú um þessar mundir. Kannski er það árstíminn. Ég rek út nefið seint um kvöld – út í myrkrið og kuldann – og ég skynja nærveru hennar þarna úti einhvers staðar; gott ef ég heyri ekki jafnvel einmanalegt hófatak í fjarska, og surgandi andardrátt þar sem hún paufast um í myrkrinu í leit að hræddum sálum til að nærast á.„Hún er sig svo ófríð…“ Ég get þó ekki sagt að ég þekki Grýlu og hvað þá að ég hafi hana séð, eins og séra Stefán Ólafsson prestur í Vallarnesi, sem orti um hana þekktasta Grýlukvæðið á 17. öld. Maður þekkir bara þessa mynd í Vísnabókinni, eftir Halldór Pétursson. Sú mynd sýnir fremur ófríða konu með flírulegt glott á andlitinu, sennilega nokkuð illa innrætta en umfram allt misheppnaða og heimskulega á svip. Halldór var svo indæll teiknari og jákvæður að honum var um megn að koma allri þessari illsku fyrir í einni mynd; hann var bestur í að teikna hesta og börn, helst saman á einni mynd. Grýla er með hófa og hala – sumir segja fimmtán hala – og á hverjum hala eru ótal belgir þar sem hún geymir börn. Hún er líka með ótal hausa – séra Stefán í Vallarnesi segir þá þrjá en í Þjóðsögum Jóns Árnasonar stendur að Grýla hafi þrjúhundruð hausa og þrenn augu í hverjum haus til að skima eftir börnunum. Hún er með augu í hnakkanum, helblá. Hún er með kartnögl á hverjum fingri. Hún er með horn eins og geit. Hún er með eyru sem lafa niður á axlir og þau eru áföst við nefið. Hún er með hökuskegg iðandi af lús og tennur sem eru eins og ofnbrunnið grjót; bara tvær segir séra Stefán. Og svo framvegis. Það væri ómaksins vert á dögum tölvumynda að reyna nú að draga upp meira sannfærandi mynd en er í Vísnabókinni af þessari fornógnarlegu ófreskju. Grýla hefur fylgt íslensku þjóðinni lengur en flestar aðrar vættir. Hún er mannæta eins og Leppalúði bóndi hennar, og er einkum sólgin í börn. Hennar er getið í Sturlungu og í Snorra-Eddu er nafn hennar að finna á meðal tröllkonuheita. Enda eru þau Leppalúði og Grýla tröll: allur heimurinn þekkir íslensku álfatrúna en á seinni tímum hefur hins vegar átrúnaður á tröll mjög látið undan síga hjá þjóðinni. Tröllin standa fyrir eitthvað ævafornt í sambúð manns og náttúru; öfl sem manninum er ofviða að kljást við, þó að þau séu í sjálfu sér einföld og skiljanleg. Íslensk náttúrutrú er full af vættum og huldu lífi sem stendur fyrir eitt og annað sem þjóðin tjáði með sögum og ljóðum áður en menntun í náttúrufræði nam hér land með tilheyrandi innsýn í náttúrulögmál. Þessari trú fylgdu margvísleg víti: ekki gera þetta, ekki ganga hér, farðu aldrei þessa leið … og svo framvegis: þetta gildir sérstaklega um trúna á huldufólk með öllum sínum álagablettum en tröllin njóta hins vegar ekki sömu virðingar í frásögnum sem til eru af þeim: þau er stærri og grófari, einfaldari og fábrotnari í illsku sinni. Huldufólkið er blendnara, getur sýnt bæði gæsku og illsku.„Grýla – skítafýla …“ En af einhverjum ástæðum er Grýla mér hugstæð um þessar mundir. Mér finnst ég stundum skynja anda hennar umhverfis mig. Hún hefur lifað af margar magrar aldir; alltaf á sínu róli meðan aðrar vættir týna tölunni smám saman. Oft hefur verið að henni sótt og heimildir eru um að Danir hafi reynt að fá Íslendinga ofan af því að hræða börn með þessum skelfingarsögum af Grýlu og hennar hyski; en allt kom fyrir ekki; Grýlutrúin hefur alltaf verið of römm hér til að unnt hafi verið af uppræta hana. Á því eru bara tvær skýringar: Sú fyrri er að Grýla sé hreinlega til og svo margt fólk hafi haft af henni persónuleg kynni að tilvist hennar sé á almanna vitorði – eða þá hitt, að Grýla standi fyrir eitthvað djúprætt og rótgróið í íslenskum hugarheimi. Ég hallast að því síðarnefnda þó að ég sé svo sem alltaf reiðubúinn að trúa ósennilegum hlutum og vilji alls ekki þvertaka fyrir að til dæmis Þorgeirsboli sé einhvers staðar uppi á heiðum fnæsandi um í leit að sínum nautabana. Eins og gildir um vættir í átrúnaði sem enginn bjó beinlínis til heldur hefur vaxið fram úr þjóðardjúpinu er Grýla persónugervingur einhvers sem ekki verður betur tjáð með öðrum hætti. Hún er eyðingarafl. Hún er hugarástand. Hún er hið illa afl sem býr í okkur sjálfum, lygarnar, óheilindin, undanfærslurnar, sérgæskan – hún er hatrið sjálft. Hún er óttinn, hinar ljótu hugsanir um ókunnugt og alsaklaust fólk, fordómarnir, rasisminn. Af einhverjum ástæðum er Grýla mér hugstæð nú um þessar mundir; ég opna tölvuna og rek nefið sem snöggvast rétt út í internetið og er óðara farinn að heyra einmanalegt hófatak hennar og surgið í henni þar sem hún paufast um í sífelldri leit sinni að hræddum sálum til að nærast á. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun Geðheilbrigðismál og landsbyggðin Eydís Ásbjörnsdóttir Skoðun Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Að sætta sig við brot á samkomulagi eða ekki Ólafur Björn Sverrisson Skoðun Verði þitt val, svo á jörðu sem á himni Halldóra Lillý Jóhannsdóttir Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun
Af einhverjum ástæðum er Grýla mér hugstæð nú um þessar mundir. Kannski er það árstíminn. Ég rek út nefið seint um kvöld – út í myrkrið og kuldann – og ég skynja nærveru hennar þarna úti einhvers staðar; gott ef ég heyri ekki jafnvel einmanalegt hófatak í fjarska, og surgandi andardrátt þar sem hún paufast um í myrkrinu í leit að hræddum sálum til að nærast á.„Hún er sig svo ófríð…“ Ég get þó ekki sagt að ég þekki Grýlu og hvað þá að ég hafi hana séð, eins og séra Stefán Ólafsson prestur í Vallarnesi, sem orti um hana þekktasta Grýlukvæðið á 17. öld. Maður þekkir bara þessa mynd í Vísnabókinni, eftir Halldór Pétursson. Sú mynd sýnir fremur ófríða konu með flírulegt glott á andlitinu, sennilega nokkuð illa innrætta en umfram allt misheppnaða og heimskulega á svip. Halldór var svo indæll teiknari og jákvæður að honum var um megn að koma allri þessari illsku fyrir í einni mynd; hann var bestur í að teikna hesta og börn, helst saman á einni mynd. Grýla er með hófa og hala – sumir segja fimmtán hala – og á hverjum hala eru ótal belgir þar sem hún geymir börn. Hún er líka með ótal hausa – séra Stefán í Vallarnesi segir þá þrjá en í Þjóðsögum Jóns Árnasonar stendur að Grýla hafi þrjúhundruð hausa og þrenn augu í hverjum haus til að skima eftir börnunum. Hún er með augu í hnakkanum, helblá. Hún er með kartnögl á hverjum fingri. Hún er með horn eins og geit. Hún er með eyru sem lafa niður á axlir og þau eru áföst við nefið. Hún er með hökuskegg iðandi af lús og tennur sem eru eins og ofnbrunnið grjót; bara tvær segir séra Stefán. Og svo framvegis. Það væri ómaksins vert á dögum tölvumynda að reyna nú að draga upp meira sannfærandi mynd en er í Vísnabókinni af þessari fornógnarlegu ófreskju. Grýla hefur fylgt íslensku þjóðinni lengur en flestar aðrar vættir. Hún er mannæta eins og Leppalúði bóndi hennar, og er einkum sólgin í börn. Hennar er getið í Sturlungu og í Snorra-Eddu er nafn hennar að finna á meðal tröllkonuheita. Enda eru þau Leppalúði og Grýla tröll: allur heimurinn þekkir íslensku álfatrúna en á seinni tímum hefur hins vegar átrúnaður á tröll mjög látið undan síga hjá þjóðinni. Tröllin standa fyrir eitthvað ævafornt í sambúð manns og náttúru; öfl sem manninum er ofviða að kljást við, þó að þau séu í sjálfu sér einföld og skiljanleg. Íslensk náttúrutrú er full af vættum og huldu lífi sem stendur fyrir eitt og annað sem þjóðin tjáði með sögum og ljóðum áður en menntun í náttúrufræði nam hér land með tilheyrandi innsýn í náttúrulögmál. Þessari trú fylgdu margvísleg víti: ekki gera þetta, ekki ganga hér, farðu aldrei þessa leið … og svo framvegis: þetta gildir sérstaklega um trúna á huldufólk með öllum sínum álagablettum en tröllin njóta hins vegar ekki sömu virðingar í frásögnum sem til eru af þeim: þau er stærri og grófari, einfaldari og fábrotnari í illsku sinni. Huldufólkið er blendnara, getur sýnt bæði gæsku og illsku.„Grýla – skítafýla …“ En af einhverjum ástæðum er Grýla mér hugstæð um þessar mundir. Mér finnst ég stundum skynja anda hennar umhverfis mig. Hún hefur lifað af margar magrar aldir; alltaf á sínu róli meðan aðrar vættir týna tölunni smám saman. Oft hefur verið að henni sótt og heimildir eru um að Danir hafi reynt að fá Íslendinga ofan af því að hræða börn með þessum skelfingarsögum af Grýlu og hennar hyski; en allt kom fyrir ekki; Grýlutrúin hefur alltaf verið of römm hér til að unnt hafi verið af uppræta hana. Á því eru bara tvær skýringar: Sú fyrri er að Grýla sé hreinlega til og svo margt fólk hafi haft af henni persónuleg kynni að tilvist hennar sé á almanna vitorði – eða þá hitt, að Grýla standi fyrir eitthvað djúprætt og rótgróið í íslenskum hugarheimi. Ég hallast að því síðarnefnda þó að ég sé svo sem alltaf reiðubúinn að trúa ósennilegum hlutum og vilji alls ekki þvertaka fyrir að til dæmis Þorgeirsboli sé einhvers staðar uppi á heiðum fnæsandi um í leit að sínum nautabana. Eins og gildir um vættir í átrúnaði sem enginn bjó beinlínis til heldur hefur vaxið fram úr þjóðardjúpinu er Grýla persónugervingur einhvers sem ekki verður betur tjáð með öðrum hætti. Hún er eyðingarafl. Hún er hugarástand. Hún er hið illa afl sem býr í okkur sjálfum, lygarnar, óheilindin, undanfærslurnar, sérgæskan – hún er hatrið sjálft. Hún er óttinn, hinar ljótu hugsanir um ókunnugt og alsaklaust fólk, fordómarnir, rasisminn. Af einhverjum ástæðum er Grýla mér hugstæð nú um þessar mundir; ég opna tölvuna og rek nefið sem snöggvast rétt út í internetið og er óðara farinn að heyra einmanalegt hófatak hennar og surgið í henni þar sem hún paufast um í sífelldri leit sinni að hræddum sálum til að nærast á.
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun