Jól

Fjölskyldan sameinast á aðventunni

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Jónína segir aðventuna einkennast af góðum mat og kökum.
Jónína segir aðventuna einkennast af góðum mat og kökum. myndir/ ernir
Jónína Lárusdóttir, skurðarbrettasmiður og eigandi Bifurkollu, er mikill matgæðingur. Hún heldur úti matarblogginu heimilismatur.com. Aðdragandi jólanna er hennar uppáhaldstími á árinu.

Mér finnst ómissandi að gæða mér á góðum mat og smákökum í desember. Ég elska þennan tíma. Hollari matur bíður bara þar til eftir jól,“ segir Jónína Lárusdóttir þegar hún er spurð út í aðventuna. Jónína er mikill matgæðingur og snýst aðventan nánast öll um bakstur og mat.

„Desember á að snúast um samveru með sínum nánustu. Við stórfjölskyldan hittumst og bökum heilu dagana og endum svo á að borða saman við kertaljós og arin­eld. Fyrir 1. desember erum við búin að baka nokkrar sortir og þann dag búum við til heitt súkkulaði með rjóma og kveikum á jólaþorpi sem við eigum. Það er dregið um það á hverju ári hver fái að stinga þorpinu í samband. Við erum einnig alltaf í dásemdar saltfiski hjá tengdó 22. desember. Sem er alveg ómissandi hefð. Jólin koma ekki fyrr en við höfum fengið okkar árlega sólþurrkaða saltfisk.“ 

Grafnar gæsabringur með parmesanosti og sósu að hætti Jónínu.
Grafin gæs



2 gæsabringur

gróft salt

1 msk. sinnepsfræ

1 msk. basilíka, þurrkuð

½ msk. óreganó, þurrkað

1 msk. timjan, þurrkað

1 msk. rósmarín, þurrkað

½ msk. salt

1 msk. sykur

1 msk. dillfræ

1 msk. rósapipar, mulinn

Byrjið á að snyrta bringurnar og fjarlægja högl. Kjötið er því næst hulið vel með grófu salti og geymt inni í ísskáp í ca. 1-1½ klst. Þá er saltið skolað vel af og kjötið þerrað. Við þetta skreppur kjötið vel saman.

Blandið þá kryddblöndunni saman í skál eða á disk og veltið bringunum upp úr blöndunni. Pakkið síðan vel inn í plast og geymið í 1-3 daga í ísskáp.

Áður en bringurnar eru sneiddar niður er best að skafa kryddið vel af þeim. Gott er að skera þær niður í þunnar sneiðar og hafa góðan fláa á sneiðunum. Það er sniðugt að raða sneiðunum á bökunarpappír og setja því næst matarfilmu yfir og fletja sneiðarnar út með kökukefli. Þær verða fallegri fyrir vikið og ekkert ósvipaðar carpaccio við það.

Með þessu er nauðsynlegt að hafa góðar sósur. Hægt er að gera pipar­rótarsósu en hér er uppskrift að balsamik chutney-sósu sem passar mjög vel með. Gott er að nota ferskan parmesanost með þessum rétti.

Balsamik chutney-sósa

½ dl olía

2 msk. balsamedik

1 tsk. rifsberjahlaup

1 tsk. bláberjahlaup (eða rifsberja)

1 poki ristaðar furuhnetur eða kasjúhnetur

½ rauðlaukur, smátt saxaður

smá salt og pipar

piparrótarsósa

1 dós sýrður rjómi

3 msk. majónes

1 pakki piparrótarmauk (rauður pakki sem er yfirleitt hjá kryddinu í verslunum)

1 msk. sítrónusafi

1 msk. hunang

1 tsk. salt

Setjið hráefnin saman í skál og hrærið. Betra er að setja piparrótarmaukið smám saman við og smakka til. Sósan geymist vel í kæli í það minnsta í viku. Gott er að nota ristað bag­uette, góð brauð eða eitthvert gott kex með þessu. Einnig er hægt að vera bara með kjötið og sósurnar. Þá er hægt að saxa smá steinselju út í sósuna.






×