Innlent

Vonskuveður fyrir austan: Vindhviður gætu náð 40 metrum á sekúndu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Veðrinu í dag fylgir mikið skafrenningskóf á fjallvegum fyrir austan.
Veðrinu í dag fylgir mikið skafrenningskóf á fjallvegum fyrir austan. vísir/vilhelm
Veðurstofan varar við stormi á Norðaustur-og Austurlandi í dag en á vef Vegagerðarinnar segir að búast megi við vindhviðum allt að 40 metrum á sekúndu í fjarðarbotnum frá Hamarsfirði og austur á Borgarfjörð.

Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofunni segir að vonskuveður verði á á Norðaustur-og Austurlandi í dag, vestan hvassviðri eða stormur með snjókomu og skafrenningi, en það lægir í kvöld. Þessu veðri í dag fylgir mikið skafrenningskóf á fjallvegum á borð við Fjarðarheiði, Oddsskarð og á Mývatns-og Möðrudalsöræfum.

Þá verður krapahríð norður með ströndinni, að Tjörnesi að telja, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar, og mikil lausamjöll er á leiðum frá Akureyri á Húsavík og Mývatn. Þar mun skafa með hvassri vestanáttinni í allan dag.

 

Færð á vegum er annars sem hér segir:

Það er hálka á Sandskeiði og Hellisheiði en snjóþekja í Þrengslunum. Á Suðurlandi er víðast snjóþekja eða þæfingur en hreinsun stendur yfir. Hálka er á Höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbraut og á Suðurnesjum.

Snjóþekja er á flestum vegum á Vesturlandi en þæfingur á fáeinum köflum og sumstaðar er éljagangur. Éljagangur er einnig á Vestfjörðum en mokstur er langt kominn.

Talsverð ofankoma er á Norðurlandi og sumstaðar hvasst. Þæfingur er á Þverárfjalli og á köflum í Skagafirði. Þæfingsfærð er á Öxnadalsheiði. Stórhríð er á Fljótsheiði og eins í Köldukinn, á Tjörnesi og í Öxarfirði - og þæfingsfærð á köflum. Hófaskarð er ófært.

Stórhríð er víða á Austurlandi. Vegurinn yfir Fjöllin er lokaður vegna veðurs og veðurútlits. Ófært er á Fjarðarheiði, Fagradal og Oddsskarði. einnig Vatnsskarði eystra, Breiðdalsheiði og Öxi.

Nokkur hálka er á Suðausturlandi en víða hvasst og mjög hviðótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×