Kærur um rangar sakargiftir á hendur tveggja kvenna sem koma við sögu í nauðgunarmálinu í Hlíðunum hafa verið felldar niður hjá lögreglu. Þá hefur kæra um nauðgun á karlmanni í sama máli einnig verið felld niður.
Þetta staðfestir Jón H.B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Kærurnar bárust í kjölfar þess að tvær konur lögðu fram nauðgunarkærur á hendur samnemanda sínum í Háskólanum í Reykjavík eftir aðskildar bekkjarskemmtanir í október. Annar maður á fertugsaldri var einnig kærður fyrir seinna atvikið sem átti sér stað í íbúð þess eldri við Miklubraut í Hlíðahverfi.
Rannsókn lögreglu á nauðgunarkærum kvennanna tveggja er lokið og hafa þær verið sendar til ríkissaksóknara.
Fréttablaðið greindi frá því í nóvember að í íbúðinni hefðu fundist tól sem notuð voru við ofbeldið, svo sem keðjur og svipur. Málið vakti mikinn óhug í samfélaginu og varð til þess að hópur fólks kom saman fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu til að mótmæla því að mennirnir tveir hefðu ekki verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Nöfn mannanna voru birt á samfélagsmiðlum og í kjölfarið var staðfest að þeir hefðu farið úr landi.
Í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um málið kærði Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, verjandi annars mannsins, konurnar tvær fyrir rangar sakargiftir og aðra þeirra fyrir nauðgun. Í nauðgunarkærunni sagði að konan hefði lagst hjá öðrum manninum, samnemanda sínum, á dýnu á gólfi íbúðarinnar og haft við hann munnmök í nokkrar sekúndur. Maðurinn hefði beðið konuna að hætta sem hún hefði gert.
Þessi kæra hefur nú verið felld niður hjá lögreglunni og rannsókn hætt. Kærur á konurnar tvær um rangar sakargiftir hafa sömuleiðis verið felldar niður.

