Innlent

Búið að opna Hafnarfjall en Öxnadalsheiði enn ófær

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Óveður er víða á vegum landsins.
Óveður er víða á vegum landsins. Vísir/Auðunn Níelsson
Búið er að loka fyrir alla umferð um Öxnadalsheiði á þjóðvegi 1 vegna veðurs. Hringvegurinn er einnig enn lokaður frá Markarfljóti að Breiðamerkurlóni. Vegurinn við Hafnarfjall hefur verið opnaður á ný.

Nokkrir bílar sitja nú fastir á Öxnadalsheiði en björgunarsveitir í Eyjafirði og Skagafirði hafa verið kallaðar út til þess að aðstoða þá sem eru fastir.

Þjóðvegurinn við Hafnarfjall var einnig lokað fyrir allri umferð vegna hvassviðris og hálku en var opnaður á ný fyrir skömmu. Vegagerðin ræður fólki eindregið frá því að vera ekki á ferðinni vegna versnandi veðurs í öllum landshlutum.

Vegir á vestanverðu Snæfellsnesi eru ófærir og þar er vonskuveður en skafrenningur er meira og minna á Vesturlandi.

Veðurstofan varar við stormi, meðalvindi yfir 20 metrum á sekúndu, á landinu í kvöld og mestallan morgundaginn.

Færð og aðstæður

Lokað er um Sandskeið, Hellisheiði og Þrengsli. Suðurstrandarvegur er hins vegar fær öllum fjórhjóladrifnum bílum.

Hálkublettir eru á stofnbrautum á Höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesbraut en hálka er á Kjalarnesi. Illfært er á Krýsuvíkurvegi.

Fróðárheiði er ófær og þungfært er á norðanverðu Snæfellsnesi. Þungfært er einnig á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku

Á Vestfjörðum er hvassviðri og skafrenningur eða jafnvel stórhríð víðast hvar og slæm færð.

Vonskuveður er einnig á Norðurlandi með skafrenningi og snjókomu. Siglufjarðarvegur og Ólafsfjarðarmúli eru lokaðir vegna snjóflóðahættu. Ófært er bæði á Öxnadalsheiði og Víkurskarði.

Stórhríð er víða á Austurlandi og flestir vegir ófærir. Af fjallvegum er aðeins Fagridalur enn fær. Stórhríð er einnig með suðausturströndinni og slæm færð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×