Jólastjarnan er nú valin í fimmta skiptið en hún er valin í tengslum við stórtónleikana Jólagestir Björgvins sem haldnir eru í Laugardalshöll í desember á hverju ári.
Líkt og fyrri ár sóttu áhugasamir um með því að senda myndbönd hingað á Vísi. Á þriðja hundrað barna sendu myndbönd og úr þeim valdi dómnefndin 12 keppendur sem fá að keppa til úrslita. Að lokum verður Jólastjarnan 2015 valin. Dómnefndina í ár skipa Gunnar Helgason leikstjóri, Gissur Páll Gissurarson söngvari, María Ólafsdóttir söngkona og Björgvin Halldórsson sjálfur.
Annar þátturinn af þremur um næstu jólastjörnu var sýndur á Stöð 2 í síðustu viku en þar komu fram sex keppendur. Umsjón með þáttunum hefur leikarinn Rúnar Freyr Gíslason en krakkarnir stóðu sig eins og hetjur í þættinum sem sjá má hér að ofan.
