Lífið

Bandarísk kona með Lord Pusswhip flúr

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Þórður Ingi Jónsson, eða Lord Pusswhip.
Þórður Ingi Jónsson, eða Lord Pusswhip. Mynd/AnnaMaggý
„Það er rosa spes, sýnir manni hvað máttur internetsins getur verið mikill,“ segir tónlistarmaðurinn Þórður Ingi Jónsson, betur þekktur sem Lord Pusswhip, um þá staðreynd að bandarísk kona fékk sér húðflúr með listamannsnafninu hans. Hin bandaríska Kitty Bailey lét flúra orðin: „Lord Pusswhip is Wack“ á fótlegg sinn, sem er titill nýútkominnar plötu Þórðar.

„Hún hafði samband við mig í gegnum netið í sumar því hún sagðist tengja svo mikið við tónlistina. Síðan sendi hún mér skilaboð um daginn og sagðist ætla að fá sér Lord Pusswhip tattú. Það kom mér vægast sagt á óvart,“ útskýrir Þórður. Hann segir þó fleiri tilviljanir tengjast þessari sögu. „Já, ég hafði ákveðið að fá mér mitt fyrsta tattú og það var nánast alveg eins.“

Hér má sjá flúrið.
Þórður er ánægður með viðbrögðin við plötunni sem kom út í lok síðasta mánaðar. „Þau hafa verið mjög góð, bæði á Íslandi og í útlöndum. En þetta var allt svo mikið brölt og stúss að mig langar bara að fara að einbeita mér að næsta verkefni.“

Þórður er nú búsettur í Berlín og segir hann tónlistina hafa haft áhrif á það. „Já, ég flutti hingað út af tónlistarsenunni án efa. Ég mun spila í London 28. og 29. nóvember á opnunarkvöldi plötuútgáfunnar Cosmic Seagull Records, sem gaf plötuna mína út." 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×