Fótbolti

Mikil öryggisgæsla fyrir El Clásico: „Meira að segja samlokurnar verða skoðaðar“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stórleikurinn á Spáni fer fram á laugardaginn.
Stórleikurinn á Spáni fer fram á laugardaginn. vísir/getty
Gríðarleg öryggisgæsla verður á og í kringum Santiago Bernabéu á laugardaginn þegar Real Madrid og Barcelona mætast í El Clásico.

Öryggisgæslan verður hert vegna voðaverkanna í París á föstudagskvöldið þar sem hryðjuverkamenn tóku líf 129 manns með vélbyssum og sprengjum.

Vináttuleikur Spánverja og Frakka, sem átti að fara fram í dag, var frestað til að tryggja öryggi leikmanna og stuðningsmanna liðanna.

El Clásico fer fram, það er klárt. Þar sem um svona stóran leik er að ræða og þá staðreynd að hann fari fram aðeins átta dögum eftir voðaverkin verður öryggisgæslan aukin.

„Meira að segja samlokurnar verða skoðaðar,“ segir Concepcion Dancausa, stjórnarerindreki í Madrídarborg, í viðtali við AS.

Þar vísar hún til stuðningsmanna Benfica sem smygluðu blysum inn á Vicente Calderón, heimavöll Atlético Madríd, í samlokum þegar liðin áttust við í Meistaradeildinni í eptember.

„Við munum gera það sem við gerum alltaf en hafa meiri stjórn á því. Eftirlitskerfið verður stærra og ítarlegra,“ segir Dancausa.

El Clásico fer fram klukkan 17.15 á laugardaginn og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×