Íslenski boltinn

Guðjón: Ég veit hvað þarf til að vinna en fólk vill bara eitthvað notalegt

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðjón Þórðarson gerði ÍA að Íslandsmeisturum í þrígang.
Guðjón Þórðarson gerði ÍA að Íslandsmeisturum í þrígang. vísir/valli
Guðjón Þórðarson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í fótbolta, var í löngu og afar áhugaverðu viðtali í Akraborginni á X977 í gær. Þar fór Skagamaðurinn klettharði á hundavaði yfir ferilinn allt frá því hann hóf að spila með frábæru liði ÍA á áttunda áratug síðustu aldar og til dagsins í dag.

Guðjón hefur þjálfað síðan 1986 og afrekað margt. Hann hefur þó ekki verið við stjórnvölinn hjá liði síðan hann var rekinn frá Grindavík með látum fyrir þremur árum síðan. Hann segist fullmeðvitaður um að hann sé ekki allra en finnst þó fólk vera mikið í því að tala um hluti sem það veit ekkert um.

„Ég veit að það eru skiptar skoðanir á mér. Það er fólk sem hefur skoðanir á mér sem þekkir mig ekki. Það sér samt alveg leik á borði að tala um mann og margt af því sem um mann er sagt er sérkennilegt og skrítið. Það er skrítið þegar fólk er að rispa á manni bakið með hnífunum að það þekkir mann ekki einu sinni,“ segir Guðjón um stöðu sína innan fótboltaheimsins í dag.

Guðjón hefur alltaf stigið mjög fast til jarðar hvar sem honum hefur niður komið, svona til að nota hans eigin frasa. Hann stendur þó og fellur með sínum ákvörðunum í gegnum tíðina.

„Maður tekur þær ákvarðanir sem eru bestar hverju sinni. Það er enginn sem kíkir til baka og hefði engu viljað breyta. Maður verður að standa við sínar ákvarðarnir. Ef þú ætlar að láta málamiðlarnir ráða för tínirðu sjálfum þér. Það er hættulegt. Þá er betra að stíga til hliðar og tapa ekki sjálfum sér,“ segir Guðjón.

„Það var ekki erfið ákvörðun að fara í mál“vísir/valli
Segir meira um þá sem tala illa um mig

Sem fyrr segir þjálfaði hann síðast Grindavík í Pepsi-deildinni sumarið 2012. Liðið féll með stæl og er eitt versta liðið í sögu tólf liða deildar.

Hann var rekinn frá Grindavík en fór í mál við knattspyrnudeildina þar sem honum fannst ekki rétt staðið að uppsögninni og vildi hann fá samninginn greiddan að fullu. Svo fór að hann vann málið og fékk ríflega átta milljónir króna.

„Það var ekki erfið ákvörðun að fara í mál. Þannig var að málum staðið að það kom ekkert annað til greina en að verja rétt sinn. Ég átti ákveðinn rétt sem launþegi. Þetta fór í gegnum tvö dómsstig og vannst eins og góður fótboltaleikur 3-0 í Hæstarétti,“ segir Guðjón, en Grindjánar hafa farið ófögrum orðum um Guðjón í eftirmálanum.

„Þetta segir meira um fólkið sem talar svona en nokkurt annað. Skítkast og ófagleg framkoma segir meira um þá en mig. Vissulega hefur þetta áhrif og þetta hefur haft skaðleg áhrif fyir mig.“

„Ég get sagt þér frá því að stjórnarmaður í efstu deild hafði samband við mig og hafði áhuga á að ráða mig til starfa. Formaðurinn í því félagi sagði að það kæmi ekki til greina að ráða Guðjón á meðan hann stæði í málaferlum við annað aðildarfélag,“ segir Guðjón.

„Ég veit alveg hvernig á að búa til fótboltalið“vísir/valli
Gamli skólinn lifir

Á löngum ferli hefur Guðjón þjálfað hér heima, í Noregi og á Englandi auk þess að stýra íslenska landsliðinu með góðum árangri. Þrátt fyrir að vera án starfs í þrjú ár segist hann hafa það sem þarf til að gera góða hluti.

„Ég veit alveg hvernig á að búa til fótboltalið. Ég veit hvernig á að koma mönnum í form og þekki þær aðferðir sem þarf til að búa til skipulag,“ segir Guðjón sem hlær að hugmyndinni og gamla og nýja skólann.

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, sýndi nefnilega í sumar að gamli skólinn kann sitthvað fyrir sér sem og Lars Lagerbäck sem vinnur með gömlu gildin og er óskabarn þjóðarinnar í dag.

„Það er alltaf verið að tala um gamla skólann og nýja skólann. Þið sérfræðingarnir út um allt talið fjálglega um að það sé nýr tími og gamall tími,“ segir Guðjón.

„Sumir eiga að vera úreltir og allt það, en svo kemur gamall Svíi sem talar um gömlu gildin, vinnusemina og varnarleikinn og það smellpassar. Þá er hann hafinn upp til skýjanna.“

„Þó það voru blendnar tilfinningar að sjá Val vinna KR í bikarúrslitaleiknum þar sem sonur minn tapaði og mitt gamla félag KR tapaði þá var gaman að sjá hvernig Óli nýtti sér reynslu sína sem reyndur refur í boltanum og steig fast til jarðar til Valsliðið. Hann vann bikar sem hefur verið vöntun á á Hlíðarenda.“

„Ég kaupi ekki þennan gamla og nýja skóla því fótboltinn er alltaf eins og hann gerir ekkert nema það sem við hann verður gert,“ segir Guðjón.

Guðjón kom Stoke upp um deild og vann framrúðubikarinn.vísir/pjetur
Er ekki of þver

Guðjón segir alveg augljóst að félög þori ekki að fá hann til starfa í dag og viðurkennir að það getur að einhverju leyti honum að kenna. Á endanum velja félögin menn sem eru þægilegri í umgengni.

„Það liggur alveg ljóst fyrir. Það getur vel verið að ég sé of fastur í minni nálgun. Ég tel mig ekki vera þveran en ég hef faglega sýn,“ segir Guðjón sem hefur óbilandi trú á sjálum sér.

„Það sem mönnum finnst erfitt að eiga við er að ég hef mikla reynslu og mikla þekkingu sem ég hef notað til góðs og nýtt mér vel. Það hafa verið hlutir sem hafa gengið illa og verið erfiðleikar en sem betur fer minna heldur en hitt.“

„Fólk vill bara eitthvað þægilegt og notalegt, en það er engin þægileg leið ef menn ætla að ná árangri. Það þarf bara blóð svita og tár. Ef þú ert ekki tilbúinn til þess að þá nærðu ekki svo glatt árangri,“ segir Guðjón.

„Agi er upphaf árangurs“vísir/pjetur
Vinnur ekkert á auðmýkt

Aðspurður hvort hann þurfi að sýna meiri auðmýkt í ljósi þess að hann fái ekki starf þessi misserin svarar Guðjón:

„Þetta snýst ekkert um hvort ég þurfi að breytast. Hvernig ætlarðu að vinna fótboltaleiki? Er það á auðmýktinni eða á frammistöðu allra aðila sem þurfa að liðinu að koma. Það þurfa að vera faglegar forsendur til þess að vinna.

„Mínar forsendur og það sem ég stend fyrir tikkar ekki inn hjá forráðamönnum félaganna hér í dag. Það þýðir ekkert fyrir mig að grenja yfir því enda dettur mér það ekki í hug. Menn verða bara að hafa þetta eins og þeir vilja. Það er ekkert við því að gera.“

„Ég veit það, að þær aðferðir duga. Svíinn hann sannaði það þegar hann kom hingað til Íslands. Ég brosti út í bæði þegar ég heyrði Lars tala um á fundi þjálfara hvaða gildum hann ætlaði að keyra á. Ég hef alltaf sagt að agi er upphaf árangurs, alveg sama hvert þú ferð eða hvað þú gerir. Agi er upphaf árangurs,“ segir Guðjón Þórðarson.

Viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×