Þegar við hugsum um Parísarráðstefnuna Guðmundur Andri Thorsson skrifar 9. nóvember 2015 06:00 Úrtölumenn í loftslagsmálum hafa í málgögnum sínum hrundið af stað umræðu um ógnvænlegan fjölda fulltrúa frá Reykjavíkurborg á væntanlega loftslagsráðstefnu í París. Ýmsir hafa stokkið á vandlætingarvagninn. Umræðan er orðin gamalkunnugt tuð um „bruðl“ og „sama rass“ og „eitthvað mætti nú malbika fyrir allan þennan pening …“ Svipuð umræða átti sér stað hér fyrir loftslagsráðstefnuna í Ríó árið 1992.Heldur borgarfulltrúa en… Önsum þessu ekki. Síst af öllu eigum við að leggja eyrun við því sem úrtölumenn í loftslagsmálum segja. Þeir hafa ekkert fram að færa annað en vífilengjur og útúrsnúninga, sem flestir koma frá dönskum reikningshaus sem heitir Björn Lomborg og hefur reiknað það látlaust út að ekkert þurfi að gera. Fyrst sögðu þeir að engin loftslagshlýnun á Jörðinni væri í gangi – „ég myndi nú alveg þiggja smá hlýnun ho ho ho“; því næst fengum við að heyra að hlýnun væri að vísu í gangi en hún væri bara fín, að minnsta kosti fyrir okkur hér á norðurhveli; svo var ekki lengur hægt að afneita slæmum afleiðingum hlýnunar, en skuldinni skellt á eldgos og vindgang kúa; engin ástæða til að breyta neinu í lífsháttum. Nú yppa þeir öxlum og segja að allt sé hvort sem er um seinan og að ekki taki því að verja fé í að breyta um orkugjafa á heimsvísu og keppist nú Lomborg við að reikna út hvernig því fé sé betur varið til annarra hluta en að breyta um orkugjafa. Alltaf að ganga erinda olíufélaga og auðhringa þessir rangnefndu íhaldsmenn og talsmenn óhófs, eyðingar og sóunar, Lomborg og fulltrúar hans hér. Önsum þeim ekki. Styðjum heldur borgarfulltrúa en lomborgarfulltrúa. Þegar við hugsum um Parísarráðstefnuna megum við ekki sjá fyrir okkur trallandi borgarfulltrúa í léttum úllala-fíling í opnum sportbíl með vindinn í hárinu – eins það er nú alltaf freistandi að hneykslast og gaman að ímynda sér kjörna fulltrúa að gera sér glaðan dag á kostnað skattborgarans þrautpínda. Sjáum heldur fyrir okkur það sem gæti gerst ef þjóðir heims ná ekki árangri í París.„Hættuleg röskun af mannavöldum“ Markmiðið er að koma í veg fyrir „hættulega röskun á loftslagskerfinu af mannavöldum,“ eins og segir í Rammasamningi loftslagsráðstefnunnar í Ríó de Janeiro frá árinu 1992. Seinna urðu menn ásáttir um að því markmiði yrði náð ef tækist að halda hlýnun andrúmsloftsins innan við 2°C að meðaltali á öldinni. Það er hægt, en aðeins með samstilltu átaki mannkyns. Annars verður illmögulegt að hindra stjórnlausar loftslagsbreytingar sem svo aftur stigmagna upp frekari losun á gróðurhúsalofttegundum; regnskógar Brasilíu verða að þurrum steppum, enda jafngildir eyðing skóga u.þ.b. 20 - 25% af losun koltvísýrings hvert ár, sem þá ekki binst. Túndrur norðursins þiðna og það mun leysa úr læðingi gríðarlegt magn metans sem er margfalt sterkari lofttegund en koltvísýringur. Ólíft verður víða vegna hita. Sjávarborð hækkar með þeim afleiðingum að heilu löndin fara undir vatn, til dæmis allt ræktarland Bangladess, sem er eitt þéttbýlasta svæði heims; stíflur bresta með ægilegum afleiðingum, flóðum og hörmungum. Flóttamannavandi heimsins þykir ærinn um þessar mundir, og nær meira að segja hingað til lands; þar sem fögur fyrirheit hafa verið gefin um framlag Íslendinga til lausnar á vanda flóttafólks frá Sýrlandi – þó að fram til þessa sé raunar eina framlag okkar í því máli áform ríkisstjórnarinnar um að vísa úr landi ungum sýrlenskum hjónum með tvær litlar stúlkur. Sýrlenskir flóttamenn eru ekki bara að flýja snaróða byssubanditta á mála hjá ókunnum öflum. Þar í landi hafa líka geisað miklir þurrkar sem valdið hafa átökum og gert svæði óbyggileg. Fái úrtölumenn enn að ráða ferð í viðbrögðum heimsins við loftslagsvánni lenda milljónir manna á vergangi í löndum sem verða nánast óbyggileg sökum þurrka og hita – eða flóða. Því fylgja styrjaldir og enn meiri óáran. Sérstakt áhyggjuefni Íslendinga í þessu sambandi – eins og fyrirtækið HB Grandi hefur þegar markað sér framsækna umhverfisstefnu út af – er súrnun sjávar sem hlýst af sívaxandi losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Hluti þessa magns binst í hafinu og hér norður frá er súrnunin tvöfalt hraðari en sunnar í Atlantshafinu. Hér kann skammur tími að vera til stefnu. Aukist magn gróðurhúsalofttegunda svo mikið að andrúmsloftið hlýni á bilinu 1,5–2°C geta loftslagsbreytingarnar gengið til baka en afleiðingar súrnunar fyrir lífríkið verða varanlegar og fiskimiðin hér við land heyra sögunni til. Það var fagnaðarefni að forsætisráðherrann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skyldi í ræðustól SÞ staðhæfa án fyrirvara að Íslendingar ætli að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir 2030. Í þessum efnum er mjög mikilvægt að segja satt. Reyndar kom aðstoðarmaður hans á harðahlaupum í kjölfarið og sagði að hér hefði ráðherrann vísað til áforma ESB sem Íslendingar hyggist taka „sanngjarnan þátt í“. Vonandi sýna þær hulduhrútslegu eftiráskýringar ekki vilja stjórnvalda í þessu efni. Hér þurfum við í raun og veru stórhug. Og ekki þarf að fjölyrða um möguleika Íslands til að losa sig við olíuna. Þegar við hugsum um Parísarráðstefnuna skulum við sjá fyrir okkur afleiðingarnar fyrir mannkyn og allt líf á Jörðunni ef samkomulag mistekst. Og svo skulum við hugsa: Hvað get ég gert? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun Að þora að stíga skref Magnús Þór Jónsson Skoðun Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun Hvernig getum við stigið upp úr sorginni? Birna Guðný Björnsdóttir Skoðun Fersk fyrirheit: máttur nýársheita og skýrra markmiða Árni Sigurðsson Skoðun Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun
Úrtölumenn í loftslagsmálum hafa í málgögnum sínum hrundið af stað umræðu um ógnvænlegan fjölda fulltrúa frá Reykjavíkurborg á væntanlega loftslagsráðstefnu í París. Ýmsir hafa stokkið á vandlætingarvagninn. Umræðan er orðin gamalkunnugt tuð um „bruðl“ og „sama rass“ og „eitthvað mætti nú malbika fyrir allan þennan pening …“ Svipuð umræða átti sér stað hér fyrir loftslagsráðstefnuna í Ríó árið 1992.Heldur borgarfulltrúa en… Önsum þessu ekki. Síst af öllu eigum við að leggja eyrun við því sem úrtölumenn í loftslagsmálum segja. Þeir hafa ekkert fram að færa annað en vífilengjur og útúrsnúninga, sem flestir koma frá dönskum reikningshaus sem heitir Björn Lomborg og hefur reiknað það látlaust út að ekkert þurfi að gera. Fyrst sögðu þeir að engin loftslagshlýnun á Jörðinni væri í gangi – „ég myndi nú alveg þiggja smá hlýnun ho ho ho“; því næst fengum við að heyra að hlýnun væri að vísu í gangi en hún væri bara fín, að minnsta kosti fyrir okkur hér á norðurhveli; svo var ekki lengur hægt að afneita slæmum afleiðingum hlýnunar, en skuldinni skellt á eldgos og vindgang kúa; engin ástæða til að breyta neinu í lífsháttum. Nú yppa þeir öxlum og segja að allt sé hvort sem er um seinan og að ekki taki því að verja fé í að breyta um orkugjafa á heimsvísu og keppist nú Lomborg við að reikna út hvernig því fé sé betur varið til annarra hluta en að breyta um orkugjafa. Alltaf að ganga erinda olíufélaga og auðhringa þessir rangnefndu íhaldsmenn og talsmenn óhófs, eyðingar og sóunar, Lomborg og fulltrúar hans hér. Önsum þeim ekki. Styðjum heldur borgarfulltrúa en lomborgarfulltrúa. Þegar við hugsum um Parísarráðstefnuna megum við ekki sjá fyrir okkur trallandi borgarfulltrúa í léttum úllala-fíling í opnum sportbíl með vindinn í hárinu – eins það er nú alltaf freistandi að hneykslast og gaman að ímynda sér kjörna fulltrúa að gera sér glaðan dag á kostnað skattborgarans þrautpínda. Sjáum heldur fyrir okkur það sem gæti gerst ef þjóðir heims ná ekki árangri í París.„Hættuleg röskun af mannavöldum“ Markmiðið er að koma í veg fyrir „hættulega röskun á loftslagskerfinu af mannavöldum,“ eins og segir í Rammasamningi loftslagsráðstefnunnar í Ríó de Janeiro frá árinu 1992. Seinna urðu menn ásáttir um að því markmiði yrði náð ef tækist að halda hlýnun andrúmsloftsins innan við 2°C að meðaltali á öldinni. Það er hægt, en aðeins með samstilltu átaki mannkyns. Annars verður illmögulegt að hindra stjórnlausar loftslagsbreytingar sem svo aftur stigmagna upp frekari losun á gróðurhúsalofttegundum; regnskógar Brasilíu verða að þurrum steppum, enda jafngildir eyðing skóga u.þ.b. 20 - 25% af losun koltvísýrings hvert ár, sem þá ekki binst. Túndrur norðursins þiðna og það mun leysa úr læðingi gríðarlegt magn metans sem er margfalt sterkari lofttegund en koltvísýringur. Ólíft verður víða vegna hita. Sjávarborð hækkar með þeim afleiðingum að heilu löndin fara undir vatn, til dæmis allt ræktarland Bangladess, sem er eitt þéttbýlasta svæði heims; stíflur bresta með ægilegum afleiðingum, flóðum og hörmungum. Flóttamannavandi heimsins þykir ærinn um þessar mundir, og nær meira að segja hingað til lands; þar sem fögur fyrirheit hafa verið gefin um framlag Íslendinga til lausnar á vanda flóttafólks frá Sýrlandi – þó að fram til þessa sé raunar eina framlag okkar í því máli áform ríkisstjórnarinnar um að vísa úr landi ungum sýrlenskum hjónum með tvær litlar stúlkur. Sýrlenskir flóttamenn eru ekki bara að flýja snaróða byssubanditta á mála hjá ókunnum öflum. Þar í landi hafa líka geisað miklir þurrkar sem valdið hafa átökum og gert svæði óbyggileg. Fái úrtölumenn enn að ráða ferð í viðbrögðum heimsins við loftslagsvánni lenda milljónir manna á vergangi í löndum sem verða nánast óbyggileg sökum þurrka og hita – eða flóða. Því fylgja styrjaldir og enn meiri óáran. Sérstakt áhyggjuefni Íslendinga í þessu sambandi – eins og fyrirtækið HB Grandi hefur þegar markað sér framsækna umhverfisstefnu út af – er súrnun sjávar sem hlýst af sívaxandi losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Hluti þessa magns binst í hafinu og hér norður frá er súrnunin tvöfalt hraðari en sunnar í Atlantshafinu. Hér kann skammur tími að vera til stefnu. Aukist magn gróðurhúsalofttegunda svo mikið að andrúmsloftið hlýni á bilinu 1,5–2°C geta loftslagsbreytingarnar gengið til baka en afleiðingar súrnunar fyrir lífríkið verða varanlegar og fiskimiðin hér við land heyra sögunni til. Það var fagnaðarefni að forsætisráðherrann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skyldi í ræðustól SÞ staðhæfa án fyrirvara að Íslendingar ætli að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir 2030. Í þessum efnum er mjög mikilvægt að segja satt. Reyndar kom aðstoðarmaður hans á harðahlaupum í kjölfarið og sagði að hér hefði ráðherrann vísað til áforma ESB sem Íslendingar hyggist taka „sanngjarnan þátt í“. Vonandi sýna þær hulduhrútslegu eftiráskýringar ekki vilja stjórnvalda í þessu efni. Hér þurfum við í raun og veru stórhug. Og ekki þarf að fjölyrða um möguleika Íslands til að losa sig við olíuna. Þegar við hugsum um Parísarráðstefnuna skulum við sjá fyrir okkur afleiðingarnar fyrir mannkyn og allt líf á Jörðunni ef samkomulag mistekst. Og svo skulum við hugsa: Hvað get ég gert?
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun