Íslenski boltinn

Kapphlaup framundan hjá FH, KR og Breiðabliki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Finnur Orri Margeirsson í leik með Blikum sumarið 2014.
Finnur Orri Margeirsson í leik með Blikum sumarið 2014. Vísir/Daníel
Finnur Orri Margeirsson er hugsanlega á heimaleik frá Lilleström í Noregi og staðfestir við Morgunblaðið að þrjú félög, FH, KR og Breiðabliki, hafi verið í sambandi við sig.

Finnur Orri hefur ekki fengið nýtt samningstilboð frá norska félaginu en þjálfari þess er Íslendingurinn Rúnar Kristinsson.

„Ef það verður ekkert spennandi sem býðst hérna í Noregi eða á öðrum stöðum þá er alveg eins gott að skoða eitthvað heima á Íslandi," sagði Finnur Orri við Guðmund Hilmarsson á Morgunblaðinu.

Finnur Orri er uppalinn Bliki og einn af leikjahæstu leikmönnum félagsins í efstu deild þrátt fyrir ungan aldur. Hann var hinsvegar búinn að semja við FH í fyrra þegar tilboðið kom frá Lilleström.

Finnur Orri nýtti sér ákvæði í glænýjum samningi sínum við Hafnarfjarðarliðið og gerði eins árs samning við Lilleström.

Finnur Orri hefur spilað 25 deildarleiki á tímabilinu þar af 19 þeirra í byrjunarliði. Hann hefur aftur á móti ekki verið í byrjunarliðinu síðan 21. ágúst og hefur aðeins fengið samtals 48 mínútur í síðustu þremur leikjum.

„Ég hef ekkert heyrt frá Lilleström svo kannski er það vísbending um að það ætli ekki að bjóða mér nýjan samning," sagði Finnur Orri ennfremur.

Finnur Orri staðfesti einnig að hann hafi heyrt frá Breiðabliki, FH og KR en þessi 24 ára miðjumaður viðurkennir þó jafnframt að hann vilji helst gefa atvinnumennskunni úti aðeins meira tækifæri.

Það lítur samt út fyrir að framundan sé kapphlaup hjá FH, KR og Breiðabliki um undirskrift frá þessum öfluga leikmanni.

Finnur Orri Margeirsson.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×