Íslenski boltinn

Markvörður Víkings lét flúra á sig Batman: „Mömmu fannst þetta heimska fyrst“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Thomas Nielsen er nú með Batman á handleggnum.
Thomas Nielsen er nú með Batman á handleggnum. vísir/andri marinó/tom/úr einkasafni
„Ég held mikið upp á Batman,“ segir Thomas Nielsen, markvörður Víkings í Pepsi-deild karla í fótbolta við Vísi.

Daninn ungi er mikill áhugamaður um rökkurriddarann og er ávallt í Batman-bol undir markvarðartreyjunni þegar hann spilar eins og sjá má á myndinni hér að ofan.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á ofurhetjum þannig þegar ég sá þennan bol varð ég bara að kaupa hann,“ segir Nielsen eldhress.

Markvörðurinn tók áhuga sinn um Leðurblökumanninn á næsta stig í gær þegar hann lét flúra mynd af honum á upphandleggsvöðvann.

„Ég hef velt þessu fyrir mér lengi en lét svo verða af þessu í gær,“ segir Nielsen sem lét flúra sig í Danmörku, en hann fór heim til sín eftir að tímabilinu lauk.

Thomas Nielsen í markinu í sumar.vísir/ernir
Mamma ekki sátt fyrst

„Þetta er samt bara helmingurinn. Ég fer aftur 10. september og þá verður flúrið klárað. Þá verður Gotham í bakgrunni og svona. Ég hlakka mikið til,“ segir hann.

Nielsen er ekki í sambandi þannig hann þurfti ekki að ræða þessa ákvörðun við neinn, en foreldrum hans fannst flúrið ekki sniðugt til að byrja með.

„Mamma fannst þetta heimska en síðan sáu foreldrar mínir flúrið í gær og þá fannst þeim þetta bara tölff,“ segir Nielsen.

Býst við að koma aftur

Daninn gerði tveggja ára samning við Víking fyrir tímabilið og býst við að verja mark liðsins næsta sumar.

„Eins og staðan er kem ég aftur í janúar en ég er ekki búinn að ræða við stjórnina,“ segir Nielsen sem er svona mátulega sáttur við fyrsta tímabilið sitt á klakanum.

„Ég byrjaði undirbúningstímabilið illa og spilaði ekki eins og ég vildi. Svo meiddist ég rétt fyrir tímabilið en eftir að ég kom til baka varð ég bara betri og betri. Sérstaklega fannst mér ganga vel hjá mér í seinni umferðinni.“

„Þetta var fínt en ég vonaðist eftir að liðið myndi enda ofar. Vonandi gengur okkur bara betur á næstu leiktíð,“ segir Thomas Nielsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×