Innlent

Bætir í frostið norðan heiða: Allt að 18 stiga frost á Akureyri

Birgir Olgeirsson skrifar
Það er kuldi í kortunum fyrir komandi helgi.
Það er kuldi í kortunum fyrir komandi helgi. vísir/valli
Víða um land mun vera frost allan sólarhringinn næstkomandi sunnudag. Sérstaklega verður kalt á Akureyri. Á hádegi á sunnudag gerir Veðurstofa Íslands ráð fyrir allt að 12 stiga frosti en um miðnætti verður frost komið niður í 17 stig á Akureyri og klukkan þrjú aðfaranótt mánudags verður þar 18 stiga frost.

Sagt var frá því í gær að spáð væri allt að 10 stiga frosti í Reykjavík næstkomandi sunnudagskvöld en nú hefur dregið úr þeirri spá og má vænta allt að sjö stiga frosti. Ljóst er þó að sunnudagurinn verður sérstaklega kaldur og mun bæta í á mánudag. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni frá því í gær hefur ekki sést kaldara loft í kortunum í allt haust.

Samkvæmt textaspá á vef Veðurstofu Íslands má búast við að það hlýni lítið eitt á þriðjudag en textaspána má lesa hér fyrir neðan:

Veðurhorfur næstu daga

Á föstudag:

Sunnan 5-13 m/s og skúrir eða slydduél, en þurrt á NA- og A-landi. Hiti 0 til 6 stig. Gengur í norðan 13-18 með slyddu eða snjókomu og kólnandi veðri NV-til um og eftir hádegi og einnig á NA-landi um kvöldið.

Á laugardag:

Norðan 8-13 m/s, en 13-18 á NA-horninu. Él um landið N-vert, en þurrt S-til. Frost 0 til 5 stig.

Á sunnudag:

Minnkandi norðanátt og él á N- og A-landi, en léttskýjað sunnan heiða. Harðnandi frost.

Á mánudag:

Suðvestlæg átt og lítilsháttar él V-til á landinu, annars víða bjart veður. Hiti rétt ofan frostmarks við V-ströndina, annars frost 1 til 12 stig, kaldast í innsveitum NA-til.

Á þriðjudag:

Útlit fyrir suðvestanátt með rigningu eða slyddu, en þurrt NA- og A-lands. Hiti 1 til 6 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×