Golf

Aftur fagnar nýliði sigri á PGA-mótaröðinni eftir ótrúlegan lokahring

Smylie hafði ríka ástæðu til þess að brosa í gær.
Smylie hafði ríka ástæðu til þess að brosa í gær. Getty.
Nýliðarnir eru að koma sterkir inn á PGA-mótaröðina í byrjun tímabils en Bandaríkjamaðurinn Smylie Kaufman sigraði á Shriners mótinu sem kláraðist í gær á ótrúlegan hátt.

Kaufman sem var aðeins að leika í sínu fjórða móti á ferlinum á PGA-mótaröðinni lék lokahringinn á TPC Summerlin vellinum á 61 höggi eða tíu höggum undir pari.

Hann fór upp um 27 sæti og beint upp í það fyrsta en samtals lék hann hringina fjóra á 16 höggum undir pari.

Enginn annar náði að toppa það þrátt fyrir að sex kylfingar hafi endað á 15 höggum undir pari, og fetar því Kaufman í spor nýliðans Emiliano Grillo sem sigraði í sínu fyrsta móti á PGA-mótaröðinni um síðustu helgi.

Kaufman vann upp níu högga forskot á lokahringnum sem verður að teljast ótrúlegt afrek en fyrir það fær hann rúmlega 130 milljónir króna í verðlaunafé og tveggja ára þátttökurétt á mótaröð þeirra bestu.

Næsta mót á PGA-mótaröðinni er CIMB Classic sem fram fer í Kuala Lumpur í næstu viku en þar eru margir af bestu kylfingum heims skráðir til leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×