Logi Pedro Stefánsson, sem vann með Karó að laginu og er annar eigandi Les Fréres Stefson, segir að flestir þeirra sem hlusta á lagið í gegnum Soundcloud-síðuna séu staðsettir í útlöndum. „Flestir koma frá Bandaríkjunum. Þar á eftir hafa flestar heimsóknirnar komið frá Kanada, þá Bretlandi, Frakklandi, Ástralíu og Þýskalandi. Fjöldi heimsókna frá Íslandi kemur svo þar á eftir.“
Ekki froða eftir einhverri uppskrift
Þau Karó og Logi eru sammála um að lagið sé vel heppnað. „Þetta virðist hitta á einhverjar taugar hjá fólki,“ segir Logi og Karó bætir við: „Já, þetta er vel heppnað popplag. Það er gott „sánd“ í þessu. Þetta er ekki froða eftir einhverri uppskrift.“
Hægt er að fá ítarlegar upplýsingar um hvaðan heimsóknir koma á Soundcloud-síður og hversu oft stakir hlustendur hlusta á lagið. „Um 50 notendur hafa hlustað á lagið oftar en tuttugu sinnum. Sá sem hefur hlustað á það oftast hefur hlustað á það í sextíu skipti, á einum mánuði. Ég held að ég hafi aldrei hlustað á neitt lag svona oft á svona stuttum tíma,“ útskýrir Logi og hlær.
„Manni finnst þetta auðvitað svolítið fjarlægt, að vita að manneskjur einhvers staðar úti í heimi séu að hlusta á lagið. Þetta er eitthvað svo langt frá manni,“ segir Karó.

Þau Karó og Logi eru sammála um að samvinna þeirra hafi gengið mjög vel. „Um leið og ég heyrði hana syngja fann ég hvað hún var efnileg og góð. Okkur gekk vel að vinna saman, þetta var ekkert stress.“ Karó segist hafa vitað það í ferlinu að þau voru með gott lag í höndunum.
„Ég veit ekki alveg hvort við höfum búist við því að þetta yrði svona vinsælt. Það kom bara skemmtilega á óvart.“ Bæði Karó og Logi eru í skemmtilegum verkefnum þessa dagana. Logi vinnur hörðum höndum að útgáfu EP-plötu Sturlu Atlas sem kemur út síðar í mánuðinum.
Karó er byrjuð á verkefni sem hún segir mjög spennandi. „Ég er að vinna með mjög efnilegum tónlistarmanni sem er á hraðri uppleið. Ég get ekki sagt meira um það að svo stöddu, en þetta er mjög spennandi.“ Hægt er að hlusta á lagið Silhouette á Youtube og á Soundcloud-síðu Les Fréres Stefson.