Íslenski boltinn

Ásmundur tekur við Fram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir
Ásmundur Arnarsson verður næsti þjálfari Fram samkvæmt heimildum Vísis en hann tekur við starfinu af Pétri Péturssyni.

Mikið hefur gengið á í herbúðum Fram í sumar. Liðið þurfti að skipta um þjálfara snemma á tímabilinu og eftir slæmt tímabil í 1. deildinni sagði stjórn knattspyrnudeildar af sér síðla sumars.

Fram hafnaði í 9. sæti deildarinnar eftir að hafa hrist af sér falldrauginn á lokasprettinum en undir lok tímabilsins varð ljóst að Pétur yrði ekki áfram með liðið.

Ásmundur hóf þjálfaraferilinn hjá Völsungi í heimabænum Húsavík en var svo lengi við stjórnvölinn hjá Fjölni áður en hann tók við Fylki haustið 2011. Honum var sagt upp störfum í Árbænum um mitt tímabil og tók þá við ÍBV eftir að Jóhannes Harðarson hætti af persóunlegum ástæðum.

Það varð ljóst um helgina að hvorki Ásmundur né Jóhannes yrðu áfram með ÍBV en Ásmundur fær nú það verkefni að koma Fram aftur í hóp þeirra bestu eftir slæmt ár í 1. deildinni.

Þess má geta að Guðlaugur Arnarsson, þjálfari meistaraflokks karla í handbolta hjá Fram, er bróðir Ásmundar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×