Íslenski boltinn

Bjarni gæti snúið aftur til ÍBV

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarni gerði frábæra hluti hjá ÍBV undir lok síðustu aldar.
Bjarni gerði frábæra hluti hjá ÍBV undir lok síðustu aldar. vísir/andri marinó
Bjarni Jóhannsson er einn þeirra sem kemur til greina sem næsti þjálfari ÍBV. Þetta staðfesti Ingi Sigurðsson, gjaldkeri knattspyrnudeildar ÍBV, í samtali við Vísi í kvöld.

ÍBV er í þjálfaraleit eftir að Ásmundur Arnarsson gaf félaginu afsvar en hann stýrði því seinni hluta tímabilsins í ár. Þá er ljóst að Jóhannes Harðarson mun ekki snúa aftur til starfa hjá félaginu vegna persónulegra ástæðna. Jóhannes var ráðinn þjálfari ÍBV fyrir tímabilið en hætti um mitt sumar að eigin ósk.

Stjórn ÍBV er með nokkra menn á blaði og að sögn Inga er Bjarni einn af þeim. Samkvæmt heimildum Vísis var Bjarni staddur í Eyjum í dag og því virðast viðræður við hann komnar eitthvað á veg.

Ingi segir Eyjamenn ætli að gefa sér nokkra daga til að fara yfir þjálfaramálin en von er á frekari fréttum af þeim síðar í vikunni.

Bjarni þekkir vel til í Eyjum en hann stýrði ÍBV með góðum árangri á árunum 1997-1999. Undir hans stjórn varð ÍBV tvívegis Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari.

Bjarni er einn reyndasti þjálfari landsins en hann var síðast við stjórnvölinn hjá 1. deildarliði KA en hann hætti hjá liðinu um mitt sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×