Tónlist

Góð tónlist, gott málefni og gott kvöld

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Úlfur Úlfur spila á tónleikunum í kvöld.
Úlfur Úlfur spila á tónleikunum í kvöld.
„Mér finnst æðislegt hvað margir eru tilbúnir að gefa vinnu sína, fyrir þetta góða málefni,“ segir tónlistarmaðurinn Helgi Sæmundur Guðmundsson, annar meðlima í sveitinni Úlfur Úlfur. Helgi stendur, ásamt öðrum, fyrir styrktartónleikum annað kvöld.

„Allur ágóðinn rennur til sýrlenskra flóttamanna, í gegnum Rauða krossinn. Hluti upphæðarinnar sem safnast fer til flóttafólks á landamærum Sýrlands og Líbanons, en þar er ástandið slæmt. En ágóðinn mun einnig renna til þeirra flóttamanna sem koma hingað til lands. Nú er farið að styttast í að fyrstu þeirra komi hingað til lands.“

Þekktir listamenn munu koma fram á kvöldinu. Að sjálfsögðu fer Úlfur Úlfur á svið, en auk sveitarinnar munu Jón Jónsson, Mily­whale, Axel Flóvent og Hinemoa troða upp. „Við byrjum klukkan átta og verðum þarna til ellefu. Þetta er kjörið fyrir fólk sem vill koma og hlusta á góða tónlist og leggja um leið góðu málefni lið. Það kostar bara þúsund krónur inn, en fólki er frjálst að borga meira. Ölgerðin mun svo selja Egils Gull á staðnum á fimm hundruð krónur og rennur salan óskipt til flóttamannanna.“

Fyrr um kvöldið verður umræða á vegum jafnréttisdaga, þar sem fjallað verður um stöðu flóttafólks á Íslandi. Þær umræður hefjast klukkan 18.45 og standa fram að tónleikum.

„Við erum viss um að margir munu koma þarna á morgun. Ég get lofað góðri skemmtun, miklu fjöri og svo ætti öllum að líða vel að mæta og láta gott af sér leið á sama tíma,“ segir Helgi Sæmundur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×