„Það er samkomulag um það að allir þingflokkar geti sett þrjú mál í forgang,“ segir Svandís Svavarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna.
Fréttablaðið hafði samband við þingflokksformenn stjórnmálaflokkanna til að kanna hvaða mál hefðu verið sett í forgang.
Flokkarnir fá að mæla fyrir málunum í ákveðinni goggunarröð þar sem Samfylkingin er fyrst, síðan Vinstri græn, þá Björt framtíð, Píratar, Framsóknarflokkur og loks Sjálfstæðisflokkur. Til að mynda mun Árni Páll Árnason mæla fyrir fyrsta máli þingsins á eftir fjárlagafrumvarpinu sem er tillaga Samfylkingarinnar um breytingar á almannatryggingakerfinu.
„Þetta er til að tryggja það að þessi mál komist á dagskrá og til nefndar,“ segir Svandís.
Hún segir að eftir að þessi mál séu komin á dagskrá og komist til nefnda þurfi þó að halda þeim á lofti til að þau hljóti endanlega afgreiðslu.
„Það er ekkert í þessu sem tryggir það að málin komist á leiðarenda.“
Mörg þeirra mála sem þingflokkarnir hafa sett í forgang eru mál sem hlutu ekki endanlega afgreiðslu á þingi og eru því endurflutt. Þau mál hafa gjarnan fengið meðferð í nefnd frá fyrra þingi og hafa því hlotið umsagnir sem tryggja málunum auðveldara brautargengi ef þau eru endurflutt.
„Stóru málin hjá okkur eru yfirleitt unnin á vettvangi ríkisstjórnarinnar,“ segir Ásmundur Einar Daðason þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
„Þannig að þingmenn stjórnarflokkanna leggja kannski frekar áherslu á svona minni og lókal mál,“ segir hann og bendir á að til dæmis séu stærstu forgangsmál Framsóknarflokksins á borð við húsnæðismálin unnin innan ríkisstjórnarinnar.
